Færeyjar sóttar heim

Vorferð stjórnar Hafnasambands Íslands var farin til Færeyja dagana 24.–26. maí sl. Síðast fór stjórn hafnasambandsins til Færeyja árið 2004.  Við komuna til Færeyja var haldið í heimsókn til Sörvágs, sem er við flugvöllinn, og þar skoðuð hafnarstarfsemin og laxeldi í Sörvágsfirði, en laxeldi er mjög víða í fjörðum Færeyja, enda Færeyingar stórir útflytjendur á eldislaxi.  Á laugardag var í byrjað á heimsókn til Runavíkur, en í Runavík er m.a. hafnaraðstaða sem þjónar olíuleit, en að auki eru þar talsvert um heimsóknir stærri togara.  

Þá var haldið til Eystur Kommunu (Götu og Leirvík) og skoðað hvernig Færeyingar vinna gulllax. Í Fuglafirði fékk stjórnin kynningu á hafnarstarfseminni, en í Fuglafirði er talsvert landað af uppsjávarfiski.  Farið var í heimsókn í fyrirtækið Havsbrun sem framleiðir mjöl og fóður og svo í einstaka frystigeymslu Bergfrost – en frystigeymslan er í raun göng inn í fjall.  Efnið sem kom úr göngunum var hins vegar notað í landfyllingar við höfnina.  Frá Fuglafirði var haldið til Klaksvíkur.  Klaksvík er ein helsta fiskihöfn Færeyja, auk þess sem umferð skemmtiferðaskipa þangað er vaxandi.

Á sunnudag var fundað með fulltrúum Þórshafnar og rætt um aðstöðu hafnarinnar í Þórshöfn, Sund og í Kollafirði. Að fundi loknum var siglt út í Nolsoy, sem liggur rétt undan Þórshöfn og er reyndar hluti af sveitarfélaginu.

Í alla staði var ferðin afar áhugaverð og fróðleg.  Móttökur Færeyinga voru að venju á heimsklassa enda gestrisni þar engu lík.  Í Færeyjum eru engin sér hafnalög, en gjaldskrár settar af hverri höfn fyrir sig.  Uppbygging gjaldskráa er í nokkru frábrugðin því sem þekkist á Íslandi t.d. varðandi fisk og vörur.  Augljóst er að Íslendingar og Færeyingar geta lært hvorir af öðrum varðandi hafnamál – og í vaxandi umsvifum í Norðurhöfum má ætla að aukið samstarf á milli landanna á þessu sviði sé skynsamleg.