ESB námstefna um innleiðingu félagslegrar þjónustu á sveitarstjórnarstigi

Þann 17. apríl sl. fór 38 manna hópur kjörinna sveitarstjórnarmanna og stjórnenda í félagsþjónustu á Íslandi til Brussel á námskeið í félagsmálastefnu Evrópusambandsins. Um var að ræða þriggja daga skipulagt námskeið með erindum hinna ýmsu sérfræðinga ESB en jafnframt var farið í heimsókn til sveitarstjórnarskrifstofu í Brussel til að skoða aðstæður fatlaðs fólks á vinnumarkaði þar í landi.

Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, forstöðumaður skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel, tók á móti hópnum fyrsta daginn og stýrði námskeiðinu alla dagana. Guðrún Dögg byrjaði á því að kynna starfsemi sambandsins í Brussel, en auk þess að veita skrifstofunni forstöðu ber hún  ábyrgð á rekstri hennar.  Fram kom hjá Guðrúnu Dögg að Brussel skrifstofa sambandsins á aðild að samstarfsneti starfsmanna evrópskra sveitarfélagasambanda þar, tekur þátt í starfi CEMR og EFTA og sinnir tengslum við fastanefnd Íslands í Brussel. Jafnframt er fylgst með málum sem eru til meðferðar hjá stofnunum ESB og EFTA og annast móttöku og fræðslu fyrir íslenska sveitarstjórnarmenn.

Í erindum sérfræðinganna var m.a. fjallað um aðildarviðræður Íslands og ESB, en um er að ræða 33 kafla um hin ýmsu málefni sem semja þarf um. Mikið var fjallað um félagsmálastefnu ESB sem var megintilgangur ferðarinnar, en m.a. var kynnt til sögunnar nefnd um félagslega vernd (Social protection Committee) sem samþykkti nýlega valfrjálst gæðakerfi fyrir aðildarlöndin um félagslega þjónustu. Markmið kerfisins er m.a. að veita aðildar-ríkjunum leiðbeinandi aðstoð við að skilgreina, tryggja, bæta og meta gæði félagslegrar þjónustu. Jafnframt var fjallað um réttindi fatlaðs fólks og fjallað var sérstaklega um nýja áætlun í málefnum fatlaðs fólks frá árinu 2012 í tengslum við það að ESB fullgillti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í desember sl. Áætlunin sem kynnt var miðar að því að gera fötluðu fólki kleift að taka fullan þátt í samfélaginu, uppræta mismunun vegna fötlunar og tryggja full mannréttindi fatlaðs fólks.

Góður rómur var gerður að námskeiðinu hjá íslensku þátttakendunum. Töluverðar umræður sköpuðust í hópnum og ekki síst fyrir utan námskeiðið. Þátttakendur námskeiðsins voru á einu máli um gagnsemi og gæði þess.