Dómur um almenningssamgöngur á Austurlandi

Héraðsdómur Austurlands kvað upp dóm í máli Sambands sveitarfélaga á Austurlandi þann 6. maí sl. Í málinu gerði SSA þær kröfur að viðurkennt yrði með dómi að Sterna væri óheimilt að stunda reglubundna fólksflutninga á áætlunarleiðinni Höfn – Egilsstaðir – Höfn og að lögbann sem sýslumaðurinn á Höfn lagði 18. júlí 2012 við reglubundnum fólksflutningum Sterna á þessari áætlunarleið yrði staðfest.

Forsaga málsins er að SSA og Vegagerðin gerðu með sér samning 22. desember 2011 um skipulagningu almenningssamgangna á Austurlandi, þar sem SSA gekkst undir ákveðnar skyldur til að skipuleggja og tryggja almenningssamgöngur á starfssvæði sínu, með því að halda uppi reglubundnum fólksflutningum gegn greiðslu árlegs styrks frá Vegagerðinni.

Í málinu var byggt á því af hálfu SSA að Sterna væri óheimilt að stunda og auglýsa reglubundna fólksflutninga á starfssvæði SSA, enda bryti það gegn einkaleyfi SSA á þessari leið, sbr. 7. grein laga um fólksflutninga og farmflutninga á landi. Því til sönnunar vísaði SSA m.a. til auglýsinga á heimasíðu Sterna um daglegar áætlanir fólksflutningabifreiða á greindri leið, þar sem ekki komu fram neinar takmarkanir á því hverjir gætu nýtt sér þjónustu fyrirtækisins. Einnig lágu frammi í málinu lögregluskýrslur sem SSA taldi staðfesta meint brot af hálfu Sterna.

Meginatriði málsins

Varnir Sterna byggðu m.a. á því að ferðir félagsins á tilgreindri leið stæðu ekki öllum opnar heldur einungis þeim sem væru handhafar svokallaðra hringmiða. Af hálfu stefnda var  skilmálum hringmiða lýst þannig að slíkur miði veitti aðgang að einungis einni hringför um landið og væri í upphafi ferðar valið hvort ferðast væri réttsælis eða rangsælis um landið.

Niðurstaða dómsins var að SSA hefði ekki hrakið fullyrðingar Sterna um að akstur á umræddri leið væri einungis opinn handhöfum hringmiða. Dómurinn komst í kjölfarið að þeirri niðurstöðu að þjónusta Sterna á umræddri leið, fyrir handhafa hringmiða, félli ekki undir hugtakið reglubundnir fólksflutningar, samkvæmt skilgreiningu d. liðar 3. gr. laga nr. 73/2001. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar.

Lagabreytingar á sumarþingi?

Í innanríkisráðuneytinu er nú unnið að frumvarpi, sem fyrirhugað er að leggja fram á sumarþingi, þar sem ætlunin er að kveða skýrar á um inntak einkaleyfis rekstraraðila almenningssamgangna og mörkin milli almenningssamgangna og almennra farþegaflutninga með ferðamenn. Í þeim frumvarpsdrögum sem Samband íslenskra sveitarfélaga fékk til umsagnar er miðað við að akstur með farþega sem hafa hringmiða, á borð við þá sem fjallað var um dómnum að framan, verði heimill. Hins vegar verði öðrum en einkaleyfishafa óheimilt að taka fyrirvaralaust upp aðra farþega á biðstöðvum almenningssamgangna.