Tallin fer nýjar og djarfar leiðir í almenningssamgöngum

Bættar almenningssamgöngur eru í brennidepli hér á landi og þess vegna er áhugavert að skoða nýjungar í nágrannalöndunum á þessu sviði. Í upphafi árs hóf höfuðborg Eistlands, Tallinn, að bjóða upp á ókeypis almenningssamgöngur fyrir íbúa sína. Markmiðið er að draga úr notkun einkabíla og mengun. Til að markaðssetja þessa bættu þjónustu hefur borgin endurskoðað alla framsetningu upplýsinga og tekur þátt í evrópskri hönnunarsamkeppni í því sambandi, „Design Management Europe Award 2012”. Hagnýting á upplýsingatækni er lykilþáttur í framkvæmdinni.  Til þess að geta notið þessara fríðinda verða íbúar að sækja um rafrænt aðgangskort á netinu. Þetta hefur orðið til þess að borgin hefur fengið upplýsingar um 9.000 nýja íbúa borgarinnar. Ferðamenn og íbúar grannsveitarfélaga greiða áfram fargjöld.  Sjá nánari kynningu á  verkefninu.

Ákvörðunin um ókeypis almenningssam-göngur var tekin á grundvelli íbúakosninga þar sem 75% samþykktu að farið yrði í verkefnið. Sú kosning var að sjálfsögðu rafræn en Eistland er eitt fárra ríkja í heiminum þar sem búið er að innleiða rafrænar kosningar í öllum kosningum. Íbúar geta valið um að kjósa að heiman eða mæta á kjörstað og kjósa þar rafrænt. Tallinn hefur einnig sótt um að fá útnefningu sem Græn höfuðborg Evrópu 2018.