Efling leikskólastigsins – sumarstörf

16. janúar 2012 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp til að setja fram aðgerðaráætlun til að fjölga þeim sem sækja um leikskólakennaranám og stuðla þannig að nauðsynlegri nýliðun meðal leikskólakennara. Í 9. grein laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda nr. 87/2008 kemur fram að a.m.k. 2/3 hlutar starfsmanna er starfa við uppeldis- og menntunarstörf á leikskólum skuli vera leikskólakennarar en hlutfallið í dag er einungis 1/3. Til að uppfylla gildandi lög þyrfti að fjölga leikskólakennurum um u.þ.b. 1500. Ljóst er að auka þarf aðsókn í leikskólakennaranám og hækka menntunarstig starfsfólks leikskóla til að uppfylla ákvæði laga. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu um aðgerðir til eflingar leikskólastigsins. Er hún aðgengileg á vef ráðuneytisins.

Af hálfu sambandsins þykir ástæða til að benda á þrjá möguleika fyrir sveitarfélög til að kynna það gróskumikla starf sem fram fer í leikskólum. Eru sveitarfélögin hvött til að leggja sitt af mörkum til eflingar leikskólastigsins því reynslan hefur sýnt að flestir sem fara í leikskólakennaranám hafi kynnst starfi leikskólans á einn eða annan hátt áður:

  • Flest sveitarfélög bjóða unglingum í elstu bekkjum grunnskólans störf í vinnuskóla og hafa margir stigið sín fyrstu skref á vinnumarkaði þar. Eitt af markmiðum vinnuskólans er að undirbúa þátttöku unglinga í atvinnulífinu. Helstu verkefnin eru snyrting og fegrun sveitarfélagsins en sum sveitarfélög bjóða einnig störf hjá ýmsum stofnunum og félögum sveitarfélagsins, þ.m.t. leikskólum.
  • 9. apríl sl. samþykkti ríkisstjórnin tillögu velferðarráðherra um ráðstöfun 250 milljóna úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að standa straum af átaksverkefni um sumarstöf fyrir allt að 650 námsmenn, 18 ára og eldri. Er þetta í fjórða sinn sem ráðist er í átak um að fjölga sumarstörfum og hafa stofnanir ríkisins og sveitarfélög ávallt sýnt verkefninu mikinn áhuga og fjöldi námsmanna þar með átt kost á áhugaverðum sumarstörfum. Sjá nánar á vef Velferðarráðuneytisins.
  • Liðsstyrkur er átaksverkefni Samtaka atvinnulífsins, stéttarfélaga, sveitarfélaga og ríkisins. Markmið þess er að auðvelda atvinnurekendum nýráðningar á einstaklingum sem hafa verið lengi án vinnu. Með því skapast ný tækifæri bæði fyrir atvinnulífið og þá einstaklinga sem í hlut eiga, sem með þessu verkefni fá tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði að nýju.

Sveitarfélög eru hvött til þess að leita leiða til að nýta þau tækifæri sem felast í framangreindum möguleikum til þess að vekja áhuga á leikskólanum sem vinnustað.


Leikskolaborn_litil


Dagur-leikskolans-Fludir