Nauðsynlegt að auka sveigjanleika

Á landsþingi sambandsins sem haldið var 15. mars sl. voru málefni grunnskólans ofarlega á baugi.

Halldór Halldórsson, formaður stjórnar sambandsins gerði m.a. kjaraviðræður við grunnskólakennara að umtalsefni í opnunarávarpi sínu. Hann sagði það eindregna afstöðu sambandsins að það hentaði ekki nútíma skólastarfi að skipulag vinnu starfsmanna væri ákveðið í smáatriðum í miðlægum kjarasamningi. Nauðsynlegt væri að auka sveigjanleikann, færa daglegt skipulag og stjórn skólanna heim á vettvang þeirra og auka verk-stjórnarvald skólastjórnenda.

Halldór nefndi stöðu mála í Danmörku í málefnum grunnskólans, kjarasamningaviðræður og tengsl þeirra við nýja skólastefnu ríkisstjórnarinnar. Hann sagði ríkja mikla þverpólitíska samstöðu, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, um að ná fram nauðsynlegum breytingum á vinnutíma kennara og kallaði eftir sambærilegum, opinberum pólitískum stuðningi sveitarstjórna og ríkisvalds við aðgerðir sem nauðsynlegar eru hérlendis ef takast á að innleiða menntastefnu stjórnvalda. Þá lýsti Halldór yfir ánægju með að ákveðinn samhljómur væri í orðum formanns Félags grunnskólakennara og afstöðu sambandsins um endurskoðun kennarastarfsins vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur á skólastarfi í grunnskóla á grundvelli menntastefnu um „skóla án aðgreiningar“. Undirritað var samkomulag milli sambandsins og KÍ vegna FG um endurnýjaða viðræðuáætlun samningaviðræðna sem felur m.a. í sér að mennta- og menningarmálaráðuneytið og Skólastjórafélag Íslands ásamt samningsaðilum munu standa sameiginlega að greiningu á framkvæmd skólastefnunnar og þeim áhrifum sem hún hefur haft á skólastarf.

aHH