Kommunustýrislimir til Íslands

Í byrjun mars komu hingað til lands um 90 sveitarstjórnarmenn frá Færeyjum til þess að taka þátt í námskeiði á vegum Kommunusamskipan Føroya, sem er annað tveggja sambanda sveitarfélaga í Færeyjum. Aðild að sambandinu eiga sjö sveitarfélög: Þórshöfn, Klaksvík, Runavík, Tvøroyri, Fuglafjørður og Sandur.

Síðasti dagur námskeiðsins var skipulagður í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Fyrri hluta dagsins fluttu starfsmenn sambandsins fjögur erindi: Magnús Karel Hannesson sagði frá skipulagi og starfsemi sambandsins og sveitarstjórnarstiginu á Íslandi; Gunnlaugur Júlíusson flutti erindi um fjármál íslenskra sveitarfélaga; Valgerður Ágústsdóttir fjallaði um málefni grunnskóla; og í erindi Gyðu Hjartardóttur var farið yfir málefni félagsþjónustunnar og þá sérstaklega reynsluna af yfirfærslu málefna fatlaðs fólks og fyrirhugaða yfirfærslu á málaflokki aldraðs fólk.

Síðar sama dag skiptu Færeyingar liði og völdu á milli fjögurra heimsókna;  í Garðabæ til að fræðast um skólastefnuna þar, til Hafnarfjarðarhafnar til að fræðast um íslenskar hafnir, í Hitt húsið til að fræðast um  starfsemina þar, ásamt  kynningu á ungmennastarfi í Reykjavíkurborg, og að lokum var farið í heimsókn til annars vegar Hrafnistu og hins vegar Barnahúss.

Heimsóknir Færeyinga eru ávallt ánægjulegar og hafa báðar þjóðir gagn og gaman af þeim.


Island-2013-035