Halldór Halldórsson gestur á þingi skoska sveitarfélagasambandsins

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðstjóri þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins, sátu á dögunum ráðstefnu á vegum skoska sveitarfélagasambandsins COSLA og Þróunarstofnun skoskra sveitarfélaga.Þetta er stærsta árlega ráðstefna skoskra sveitarstjórnarmanna. Yfirskrift ráðstefnunnar var: „Today´s Reality…Tomorrow´s Vision“.

Aðalþema ráðstefnunnar var annars vegar velferðarþjónustan, boðaðar breytingar á henni og úrlausnarefni til framtíðar litið í ljósi öldrunar íbúa og aukinna krafna. Hins vegar áhrif væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands árið 2014 á stöðu sveitarfélaga.

Sveitarfélög á Bretlandseyjum hafa ekki eins sterka lagalega stöðu eins og á Norðurlöndunum. Lögformleg stjórnarskrá, sem tryggir tilvist sveitarfélaga, er t.d. ekki fyrir hendi. Skoskir sveitarstjórnarmenn líta á þjóðaratkvæðagreiðsluna sem tækifæri til að styrkja stöðu skoskra sveitarfélaga, á hvorn veginn sem hún fer. Þess vegna bauð COSLA Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og varaformanni hollenska sveitarfélagasambandsins, VNG, að taka þátt í pallborði á ráðstefnunni til að segja frá stöðu sveitarfélaga í þeirra löndum sem er mun sterkari en í Skotlandi.

Lýsing Halldórs á  íslenska sveitarstjórnarstiginu vakti óskipta athygli þar sem segja má að við búum við öfgar í öfuga átt miðað við skosk sveitarfélög sem eru þau stærstu í Evrópu með yfir 160 þús. íbúa að meðaltali og búa við töluverða miðstýringu. Skoska ríkisstjórnin íhugar nú að fækka sveitarfélögunum enn frekar eða úr 32 í 16 í hagræðingarskyni. Skoskum sveitarstjórnarmönnum finnst þeir standa berskjaldaðir gagnvart slíkum hugmyndum þar sem sveitarfélög njóta ekki stjórnskipunarlegrar verndar.

1