Gera þarf kröfur um bættan árangur

Claus Ørum Mogensen skrifstofustjóri hagdeildar KL var gestur landsþings sambandsins og í erindi sínu greindi hann frá þeirri stöðu sem upp er komin í viðræðum við kennarasamtökin þar í landi. Eftir margra mánaða samningaviðræður hefur þeim verið vísað til sáttasemjara en auk þess hefur KL boðað verkbann á störf kennara frá 1. apríl nk. og mun allt skólastarf falla niður frá þeim tíma. Ekki hefur áður verið gripið til þessa bragðs í Danmörku sem undirstrikar vel alvarleika stöðunnar.  

Samstaða ríkis og sveitarfélaga

Claus sagði ríkja um það mikla samstöðu meðal sveitarstjórnarfólks að breyta þyrfti vinnutímaskilgreiningu í kjarasamningi kennara. Sú skoðun væri jafnframt studd af ríkisstjórn Danmerkur sem markað hefur skólastefnu til framtíðar undir heitinu: Gør en god skole bedre – et fagligt løft af folkeskolen.  Hún felur m.a. í sér að nemendur fá fleiri vikulegar kennslustundir, kennarar verja meiri tíma með nemendum og vægi kennslu í móðurmáli og stærðfræði verður aukið. Í þessu skyni mun ríkisstjórnin verja einum milljarði danskra króna til símenntunar kennara fram til ársins 2020 auk þess sem kennsluráðgjafar verða ráðnir til þess að aðstoða við innleiðingu stefnunnar um land allt. Til að stefna ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga er að áliti KL óhjákvæmilegt að gera breytingar á kjarasamningi kennara.

Í máli Claus kom fram að alltof hátt hlutfall ungmenna útskrifist úr dönskum grunnskóla án þess að hafa grundvallar lestrar- og stærðfræðifærni og við svo búið verði ekki unað.  Gera þurfi auknar kröfur um bættan árangur kerfisins og skilvirkni.

Margt af því sem Claus nefndi á sér beina samsvörun í íslenskum veruleika í dag bæði hvað snertir kjarasamninga kennara, færni nemenda við lok grunnskóla og kostnað við rekstur grunnskólans. Niðurstöður á læsi unglinga í Reykjavík hafa m.a. sýnt að um fjórðungur drengja virðist ekki geta lesið sér til gagns við lok grunnskóla og sífellt hærra hlutfall nemenda á Íslandi þarfnast sérkennslu eða stuðnings í námi.

aIMG_0734