Málþing um byggðamál og svæðasamvinnu

Þekkingaruppbygging í byggðamálum hefur verið þáttur í aðildarferli Íslands vegna ESB umsóknarinnar. Meðal annars hafa allir landshlutar átt þess kost að fara í námsferð til aðildarríkja til að kynna sér fyrirkomulag byggðamála. Evrópsk byggðamál byggja á áætlunargerð fyrir svæði. Beitt er aðferðum ramma- og árangursstjórnunar og sveitarfélög hafa mikilvægu hlutverki að gegna.

Við getum lært margt af evrópskum byggðamálum, burtséð frá aðildarumsókninni, m.a. um svæðasamvinnu, aðferðir við áætlunargerð og samstarf við hagsmunaaðila um hana. Samband íslenskra sveitar-félaga stóð fyrir málþingi um námsferðirnar 14. mars 2013 með yfirskriftinni: „Hvers urðum við vísari og hvað gætum við tileinkað okkur“.  Málþingið hafði skírskotun til dagskrár landsþings sambandsins sem var haldið daginn eftir. Svæðasamvinna sveitarfélaga er í brennidepli hér á landi og á landsþinginu voru ræddar áfanganiðurstöður nefndar sambandsins um þau mál.

Fluttar vour níu áhugaverðar kynningar á málþinginu sem spönnuðu sex lönd, allt frá uppbyggingu á ferðaþjónustu og námuvinnslu í Norður-Finnlandi og til þess hvernig eyðiþorp í Baskalandi á N-Spáni hafa fengið nýtt líf.  Áhugavert var að heyra hvernig sveitarfélög eru að vinna saman eftir svæðum að sameiginlegum þróunar- og uppbyggingarmarkmiðum og hvernig einstök sveitarfélög eru að nýta byggðasjóði ESB til umbóta í rekstri sínum og starfsemi. Flestir minntust á það hversu margt þeir hefðu fundið sameiginlegt með heimaslóðum, eins og t.d. hversu margt sé líkt með Akureyri og 23 þúsund manna sveitarfélaginu Ulricehamn í Suður-Svíþjóð sem setti sér það markmið að verða framsæknasta sveitarfélagið í Svíþjóð í þróunarverkefnum með tilstyrk evrópskra byggðasjóða og tókst að ná markmiði sínu.

Hér á heimasíðu sambandsins um byggðamál eru allar kynningarnar frá málþinginu og einnig skýrslur um ferðirnar og kynningar frá þeim.

aIMG_0606

Byggdamal-2

Byggdamal-1