Afkoma LS árið 2012 í takt við væntingar

Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga fyrir árið 2012 nam 816 m.kr. samanborið við 951 m.kr. árið 2011. Lækkun hagnaðar milli ára skýrist aðallega af minni vaxtatekjum vegna lækkunar á breytilegum útlánavöxtum sjóðsins sem og minni eins skiptis vaxtatekjum vegna fyrirfram uppgreiðslna lána.

Meginhlutverk lánasjóðsins er að tryggja íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum. Útborguð langtímalán á árinu námu 5.000 m.kr. samanborið við 6.792 m.kr. árið áður.

Sjóðurinn hefur aldrei tapað útláni frá því að hann hóf starfsemi árið 1967 og vanskil voru engin við undirritun þessa ársreiknings. Sveitarfélögin bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, en hafa heimild í lögum til að veita sjóðnum veð í tekjum sínum sem tryggingu fyrir lánum sem þau taka hjá sjóðnum. Í árslok voru 99% útlána sjóðsins til sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu með slíkt veð.

Eigið fé í árslok 2012 var 15.470 m.kr. á móti 15.129 m.kr. í árslok 2011. Vegið eiginfjárhlutfall var 64% í árslok 2012 og hækkar úr 58% frá árslokum 2011. Heildareignir sjóðsins í árslok 2012 voru 70.212 m.kr. samanborið við 72.362 m.kr. í árslok 2011.
Framtíðarhorfur

Gert er ráð fyrir að afkoma sjóðsins á árinu 2013 verði að mestu leyti í samræmi við afkomu ársins 2012. Sem fyrr verður allt kapp lagt á að tryggja lánshæfi sjóðsins og viðhalda því trausti sem fjárfestar hafa á skuldbindingum hans.

Lánasjóðurinn mun í meginatriðum starfa líkt og undanfarin ár þar sem stefnt hefur verið að eflingu á starfsemi hans og að nýta gott lánstraust sjóðsins til að útvega sveitarfélögunum lánsfé á hagstæðum kjörum.

aIMG_0853

Magnús B. Jónsson, formaður stjórnar LS, flytur skýrslu stjórnar á aðalfundinum 15. mars. 

LS

Frá aðalfundi LS 2013. Dagur B. Eggertsson fundarstjóri ásamt Magnúsi B. Jónssyni formanni, Óttari Guðjónssyni framkvæmdastjóra og Guðjóni Bragasyni, ritara fundarins.