Umsagnir um lagafrumvörp og ályktanir á vef sambandsins

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga, www.samband.is eru færðar inn umsagnir sem sambandið sendir til Alþingis og ráðuneyta vegna lagafrumvarpa, reglugerða, þingsályktana og draga að lagafrumvörpum.

Breyting á lögum um grunnskóla – frístundaheimili

Sambandið hefur sent allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis umsögn um breytingu á lögum um grunnskóla. Frumvarpið kemur nú fram í annað sinn og hefur tekið talsverðum breytingum. Ítarlegri ákvæði eru um sjálfstætt rekna grunnskóla en var í fyrra frumvarpi og þar er einnig að finna nýtt ákvæði um starfsemi frístundaheimila.

Í umsögn sambandsins segir að orðalag 5. greinar frumvarpsins, um frístundaheimili, bendi til þess að marmiðið sé að gera frístundaheimili að skylduverkefni sveitarfélaga og telur sambandið eðlilegt að hafa fyrirvara við slíkar tillögur að lagabreytingum.  Greinin kemur í lögin í stað heimildarákvæðis um lengdra viðveru sem var í fyrra frumvarpi.

Að mati sambandsins eru í frumvarpinu byggðar upp væntingar til fagfólks og foreldra um þá þjónustu sem frístundaheimilin eiga að veita, m.a. hvað varðar stuðning við börn með sérþarfir og börn af erlendum uppruna. Sambandið telur það góð og gild markmið, en þau geta leitt til útgjaldaauka sveitarfélaganna auk þess sem faglegar og fjárhagslegur forsendur sveitarfélaga eru mismunandi.

Skortur á gögnum og tölfræðilegum upplýsingum um einstaka þætti í starfsemi frístundaheimila leiðir til þess að ekki liggur fyrir hvað tillaga í 5. gr. frumvarpisins myndi taka til margra grunnskóla. Sambandið leggur því til að lögfesting nýrrar greinar um starfsemi frístundaheimila verði frestað um sinn.

Meðhöndlun úrgangs

Þann 18. maí sendi sambandið umsögn um frumvarp til laga um meðhöndlun úrgangs, 670. mál. Frumvarpið varðar innleiðingu ýmissa tilskipana ESB um úrgangsmál sem og breytingar á kæruheimild laga um málskot til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sambandið gerir athugasemd við ákvæði í frumvarpinu sem heimilar Umhverfisstofnun að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögunum, 17. grein, og leggur til að lögfestingu ákvæðisins verði frestað.