Aðildarfélög Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í starfsmat

Samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga Félags íslenskra félagsvísindamanna, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Félagsráðgjafafélags Íslands, Fræðagarðs, Iðjuþjálfafélags Íslands, Sálfræðingafélags Íslands, Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélags lögfræðinga og Þroskaþjálfafélags Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning 21. mars s.l. Einnig skrifuðu  samninganefndir sambandsins og Félags íslenskra hjúkr-unarfræðinga undir sambærilegan kjarasamning þann 22. apríl s.l.

Nýir kjarasamningar fela í sér veigamiklar breytingar á samsetningu heildarlauna háskólamanna við innleiðingu og upptöku starfsmats samkvæmt starfsmatskerfinu SAMSTARF, sem kemur að fullu til framkvæmda árið 2018.

Þann 1. apríl sl. hófst innleiðingarferli starfsmats með nýrri launaröðun starfa til bráðabirgða. Þann 1. júní 2018 kemur starfsmat að fullu til framkvæmda og þá munu öll störf raðast samkvæmt starfsmati og röðun til bráðabirgða fellur úr gildi.

Forsenda upptöku starfsmats er breyting á samsetningu heildarlauna, þannig að hlutur dagvinnulauna eykst og fastar viðbótargreiðslur lækka sem nemur þeirri hækkun sem leiðir af bráðabirgðaröðun starfa og upptöku starfsmats.

Um innleiðingu og framkvæmd starfsmats gilda verklagsreglur þeirra aðila sem aðild eiga að starfsmatskerfinu SAMSTARF, sjá www.starfsmat.is.

Markmið starfsmats er að tryggja að starfsmönnum séu ákvörðuð laun með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og hægt er. Einnig að störfum sé raðað þannig til grunnlauna að þau séu eins fyrir störf sem metin eru jafnkrefjandi, óháð starfsstöðum, stéttarfélagi eða kyni.

Með þessum kjarasamningum er stigið veigamikið skref í þá átt að styrkja samkeppnisstöðu sveitarfélaga vegna háskólamenntaðra sérfræðinga.