Endurskoðun skattlagningar á ökutæki og eldsneyti

Athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga til starfshóps fjármálaráðuneytisins

Þann 27. apríl sl. sendi sambandið ítarlegt erindi til nefndar er fjalla skyldi um endurskoðun skattlagningar á ökutæki og eldsneyti. Í erindinu voru áréttaðar ábendingar sambandsins vegna skattlagningarinnar og minnt á stefnumörkun sambandsins frá landþingi árið 2014 um að sveitarfélög fái tekjur af umferð. Umræðan sem fram fór á landsþinginu tengdist m.a. auknu álagi á vegi bæði í dreifbýli og þéttbýli vegna fjölgunar erlendra ferðamanna.

Í stefnumörkuninni segir:

  • Sambandið skal vinna að því að sveitarfélög fái sanngjarna hlutdeild í gjöldum af umferð. Útfæra þarf hlutdeildina og útgreiðslu til sveitarfélaga með hliðsjón af auknum skyldum sveitarfélaga samkvæmt vegalögum og áherslu á vistvænar samgöngur. (3.2.6)
  • Sambandið skal vinna að því, í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, að tryggja öruggan laga- og rekstrargrundvöll fyrir heildstætt kerfi almenningssamgangna milli og innan landshluta. (3.4.20)
  • Sambandið skal vinna að því að við stefnumótun í samgöngumálum verði vistvænar samgöngur settar í forgang með því að styðja sérstaklega við notkun vistvænna orkugjafa, draga úr neikvæðum áhrifum af bílaumferð og auka jafnræði ólíkra samgöngumáta. (3.4.21)
  • Sambandið skal gæta hagsmuna sveitarfélaga við mótun löggjafar um gjaldtöku af ferðamönnum og töku ákvarðana um uppbyggingu innviða til að mæta auknum straumi ferðamanna til landsins. Ekki nægir að veita fjármagni til að vernda og byggja upp aðstöðu á ferðamannastöðum heldur þarf einnig að styrkja samgöngumannvirki og veita fjármagni til viðhalds þeirra til að þau standist aukið álag. (3.2.22)
  • Sambandið beiti sér fyrir því að ríki, sveitarfélög, landeigendur og ferðaþjónustan vinni saman að því að draga úr neikvæðum áhrifum af aukinni umferð ferðamanna á viðkvæma staði í íslenskri náttúru. Áhersla verði lögð á nauðsynlega uppbyggingu á ferðamannastöðum og að umferð ferðamanna verði beint á landsvæði sem þola aukna umferð. Jafnframt verði lögð áhersla á að vegum og öðrum innviðum verði viðhaldið til að þeir þoli þá auknu umferð sem leiðir af fjölgun ferðamanna. (3.4.15)

Framangreindar áherslur eru leiðarljós í hagsmunagæslu Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaga og leggur sambandið áherslu á að starfshópurinn skoði fyrirliggjandi gögn um skiptingu útgjalda ríkis og sveitarfélaga til vegamála.