Samráðsfundur HA og sambandsins

Fyrsti formlegi samráðsfundur sambandsins, Háskólans á Akureyri, og Miðstöðvar um skólaþróun við HA fór fram mánudaginn 9. maí sl. á grundvelli viljayfirlýsingar um faglegt samstarf sem undirrituð var í desember 2015. Fundinn sátu Bragi Guðmundsson, Kristín Dýrfjörð, Birna Arnbjörnsdóttir og Trausti Þorsteinsson frá HA auk fullrúa skólamálanefndar og skólateymis sambandsins. Markmið fundarins var m.a. að ræða með hvaða hætti HA og sambandið gætu tekið höndum saman um að efla starfshæfni kennaraefna og kennara til að takast betur á við það hlutverk að vinna með öllum börnum í skóla án aðgreiningar. Farið var yfir stefnumörkun sambandsins er tekur til þessara þátta, kynnt endurskoðað námskipulag við kennaradeild HA og rætt um þá þróun sem orðið hefur í málefnum sérkennslu og stuðnings í leik-og grunnskólum og hvernig mætti snúa henni við. 

Á fundinum fór fram mikil og góð samræða og ljóst er að þessi samráðsvettvangur er til þess fallinn að efla skilning á milli aðila og auka möguleika á að vinna sameiginlega að breyttum áherslum. Umrædd málefni snerta hagsmuni beggja aðila. Næsti fundur er áætlaður síðari hluta þessa árs á Akureyri en á milli funda munu starfsmenn sambandsins og HA eiga með sér óformlegt samstarf eftir þörfum.