Nýsköpunarkeppni grunnskóla

Hin árlega Nýsköpunarkeppni grunnskóla (NKG) fór fram í Háskólanum í Reykjavík 19.-22. maí sl. Alls bárust 1750 hugmyndir og voru 27 valdar úr til að keppa til úrslita. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafði veg og vanda að skipulagi og framkvæmd keppninnar. Haldnar voru vinnusmiðjur dagana 19.-21. maí þar sem nemendur útfærðu hugmyndir sínar með hjálp leiðbeinenda og huguðu að markaðssetningu þeirra, samstarfsaðilum og fjármögnun. Óhætt er að segja að hugmyndaauðgi grunnskólanemenda eru lítil takmörk sett og ljóst að þarna fara uppfinningamenn framtíðar sem eiga vafalítið eftir að gera garðinn frægan. Mikilvægt er að hlú vel að sköpunarkrafti nemenda og styðja þau í því að sjá hugmyndir sínar verða að veruleika.

Á lokadeginum, 22. maí afhenti forseti Íslands verðlaun og viðurkenningar. Á heimasíðu NKG má finna frekari upplýsingar um verðlaunahafa. Samstarfsaðilar NKG eru mennta-og menningarmálaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Menntamálastofnun, Háskóli Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands auk Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá styrkir Arionbanki myndarlega við keppnina.

Hrafnhildur Haraldsdóttir og Hafsteinn Yngvi Kolbeinsson úr Árbæjarskóla fengu Tæknibikarinn fyrir Hitaskiltið.

Björn Þór Hrafnhelsson úr Stóra Vogaskóla hlaut Guðrúnarbikarinn fyrir hugmynd sína, Gluggaopnari fyrir ketti - MurrinnX.