Morgundagurinn byrjar í dag

Allsherjarþing CEMR, Kýpur 20.-22. apríl 2016

Evrópusamtök sveitarfélaga, CEMR, sem Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að, halda fjórða hvert ár allsherjarþing. 26. allsherjarþing samtakanna var haldið á Kýpur dagana 20.-22. apríl sl. Á þinginu var fjallað um helstu úrlausnarefni evrópskra sveitarfélaga í dag og til framtíðar litið undir yfirskriftinni „Morgundagurinn byrjar í dag!“

Við opnunarathöfn þingsins talaði franski ljósmyndarinn Yann Arthus-Bertrand. Hann er sendiherra Sameinuðu þjóðanna í umhverfismálum og varð heimsfrægur fyrir hinar stórkostlegu loftljósmyndir sínar sem veittu nýja sýn á jörðina sem sameiginleg heimkynni jarðarbúa. Á þinginu var sýnd nýleg heimildarmynd hans, „Human“. Hún varpar á áhrifamikinn hátt ljósi á allt það sammannlega sem jarðarbúar eiga sameiginlegt burtséð frá kynþætti, lifnaðarháttum og trúarbrögðum. Hér er kynning á myndinni.

Á þinginu voru yfir 30 málstofur sem hægt var að velja á milli um m.a. ESB mál, fjármál sveitarfélaga, jafnréttismál, byggðamál, umhverfismál, lýðræðismál og stjórnunarlegar og tæknilegar áskoranir sveitarfélaga. Í tengslum við þingið var haldinn fundur í stefnumótandi nefnd CEMR, sem fer með pólitíska yfirstjórn samtakanna, þar sem flóttamannamálin voru heitasta efnið.  Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, tóku þátt í fundinum fyrir hönd sambandsins og í þinginu. Auk þeirra tóku þátt Karl Björnsson framkvæmdastjóri og Anna G. Björnsdóttir sviðsstjóri.

Eiríkur var með framsögu á þinginu í málstofu sem fjallaði um íbúalýðræði og hvernig hægt sé að nota „SMART“ tækni til að berjast gegn spillingu. Hann fór yfir hvernig tókst á innan við sólarhring, með aðstoð samfélagsmiðla, að fá næstum því 7% íslensku þjóðarinnar til að mótmæla fyrir framan Alþingishúsið sem leiddi til afsagnar forsætisráðherrans daginn eftir. Hann fór einnig yfir hvernig unnið er að því að tryggja meiri og markvissari þátttöku íbúa í stjórnun Akureyrarkaupstaðar og byggja upp traust á milli íbúa og kjörinna fulltrúa. Framsaga hans vakti mikla athygli og veftímaritið „CitiesToday“ var með hans framsögu efst á blaði í umfjöllun um það sem bar hæst á þinginu.

Í lokaathöfn þingsins var þingfulltrúum efst í huga að það sé þörf á því að hugsa Evrópusamstarfið upp á nýtt með hliðsjón af þeim vanda sem ESB glímir við, s.s. þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi. Framkvæmdastjóri CEMR Frédéric Vallier kynnti áform CEMR um að vinna blábók um hvernig hægt sé að endurskapa Evrópusamstarfið þar sem komið verði á framfæri tillögum sveitarfélaga og héraða um hvernig hægt sé að takast á við aðsteðjandi vanda.