Sveitarfélög eru í lykilstöðu

8.evrópska ráðstefnan um sjálfbærar borgir – Bilbao í Baskalandi á Spáni, 26. til 29. apríl 2016

Fulltrúar sambandsins og Reykjavíkurborgar sóttu í lok apríl 8. ráðstefnu um sjálfbærar borgir í Bilbao í Baskalandi á Spáni. Þessi ráðstefna hefur verið haldin með þriggja ára millibili í ýmsum evrópskum borgum þar sem stefnumál í sjálfærni og verkefni tengd sjálfbærni hafa verið kynnt. Helstu vandamál heimsins kristallast í borgum sem eru sístækkandi, en í þeim býr nú þegar meirihluti mannkynsins.

Helstu umræðuefni á ráðstefnunni voru nýsamþykkt sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna (Dagskrá 2030) sem er markmið í 17 liðum og snúa að hinum þremur meginstoðum sjálfbærni; félagslegum fram-förum, fjárhagslega ábyrgri hegðun og að taka tilliti til umhverfislegra gæða. Annað málefni var um  loftslagsbreytingar og sérstaklega hina nýafstöðnu loftslagsráðstefnu í París, COP 21.

Það er hefur tíðkast á þessum ráðstefnum að gefin er út yfirlýsing sem kennd er við ráðstefnustaðinn. Að þessu sinni var kynnt og samþykkt Baskayfirlýsingin sem kallar á þrjár meginumbreytingar í samfélagi okkar, sem  snúa að tengingu félagslegra og menningarlegra þátta, tengingu félagslegra og fjárhagslega þátta og að tæknilegum þáttum.

Áhersla á félagslega þætti

Mikil áhersla var lögð á hvernig efla mætti félagslega stoð sjálfbærrar þróunar.  Í yfirlýsingunni er lögð aukin áhersla á félagslega þætti, menningu og virkni íbúa í borgum og bæjum. Mikið var fjallað um að ekki væri nóg að bjóða öllum til þátttöku við skipulagningu aðgerða heldur væri einnig mikilvægt að fólk fengi hlutverk við innleiðingu þeirra.  Birtist þetta í yfirlýsingunni í notkun hugtaka á borð við samsköpun þ.e. samvinna um hönnun, aðgerðir og nýsköpun.

Ljóst er að sveitarfélög eru í lykilstöðu þegar kemur að breytingum á menningu samfélaga í átt til sjálfbærrar framtíðar.  Sveitarfélögin ráða yfir menntunar- og menningarstofnunum sem geta hjálpað til við þær miklu félagslegu breytingar sem þurfa að verða með tilliti til vandamála í umhverfismálum.  Aukin áhersla á þátttöku fólks í skipulagningu  og innleiðingu á þverfaglegri þjónustu í nærumhverfi sínu er lykill að því að samþætta aðgerðir varðandi sjálfbæra þróun. Þar felast hugsanlega tækifæri í því að virkja allar stofnanir sveitarfélaga og vinna svo náið með félagasamtökum, fyrirtækjum og almenningi í anda Baskayfirlýsingarinnar.