Að finna balansinn

Sambandið gekkst fyrir morgunverðarfundi um skólamál 10. maí sl.

Sjónum var beint að skiplagi skólastarfs og sérfræðiþjónustu í skóla fyrir alla. M.a. var velt upp spurningum um það hvort greiningar á vandkvæðum nemenda tækju of mikið rými á kostnað staðbundinna úrlausna, teymisvinnu og heildarhugsunar. Þá var lögð áhersla lögð á að skoða það sem vel hefur virkað við endurskipulagningu þjónustu við nemendur. Þau Trausti Þorsteinsson, dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri, Hákon Sigursteinsson, deildarstjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, Hrund Harðardóttir, deildarstjóri stoðþjónustu, og Kristín Björk Jóhannsdóttir, deildar-stjóri Sérdeildar Suðurlands auk Rakelar Ýrar Isaksen, sérkennslustjóra leikskólans Álfaheiði héldu erindi og svöruðu fyrirspurnum.

Þessi fyrsti fundur tókst með ágætum en þátttakendur hefðu að ósekju mátt vera fleiri. Vitað er að nokkur fjöldi fylgdist með beinni útsendingu frá fundinum og gátu þeir jafnframt sent inn spurningar til fyrirlesara. Erindin hafa verið gerð aðgengileg á vefsambandsins ásamt glærum fyrirlesara.

Áætlað er að halda tvo fundi til viðbótar af sama meiði. Þá verður m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess að mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi stilli betur saman strengi sína til þess að gera öllum nemendum kleift að nýta hæfileika sína til náms og þroska.