Umsagnir um frumvarp til laga um vatnsveitur

Innanríkisráðuneytið kynnir nú að nýju til umsagnar drög að lagafrumvarpi um breytingar á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004 . Unnt er að koma umsögnum um frumvarpsdrögin á netfangið postur@irr.is til og með 30. október næstkomandi. Meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og treysta grundvöll álagningar vatnsgjalds á vegum vatnsveitna sveitarfélaga fyrir þá almannaþjónustu sem þær veita en hvorki að útvíkka né auka gjaldtökuna frá því sem verið hefur.

Í frumvarpinu felast tvær meginbreytingar frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi er kveðið með skýrum hætti á um það að vatnsgjald verði ekki innheimt af fasteign fyrr en hún hefur verið tengd dreifikerfi vatnsveitu um heimæð. Er þannig horfið frá þeirri framkvæmd að upphaf gjaldtöku miðist við tiltekið byggingarstig mannvirkja, óháð því hvort fasteignin hafi verið tengd vatnsveitunni með heimæð, enda markar sú tenging þann aðgang að þjónustu vatnsveitunnar sem innheimta vatnsgjaldsins byggist á. Í öðru lagi er nú kveðið skýrt á um þá meginreglu að vatnsgjaldið skuli taka mið af fasteignarmati fasteignarinnar í heild, þótt með tilteknum undantekningum sé. Miða þessar breytingar að því að treysta grundvöll innheimtu vatnsgjalds sem þjónustugjalds þótt vatnsnotkun einstakra notenda sé almennt ekki mæld.

Frumvarpsdrögin eru samin í innanríkisráðuneytinu í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Orkuveitu Reykjavíkur. Þá var jafnframt byggt á vinnu Trausta Fannars Valssonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, sem yfirfór frumvarpsdrögin með hliðsjón af þeim kröfum sem Hæstiréttur Íslands hefur gert til lagasetningar og skilyrða um þjónustugjöld. Samhliða hefur verið unnið að drögum að frumvarpi til sambærilegra breytinga á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 .

Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um vatnsveitu sveitarfélaga nr. 32/2004 .