Samningur um mál- og talþjálfun

Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu gerði, fyrst skólaþjónusta á landinu, samning við Sjúkratryggingarnar um kostnaðarþátttöku ríkisins í mál- og talþjálfun leik- og grunnskólabarna. Fram til þessa höfðu Sjúkratryggingarnar eingöngu gert slíka samninga við sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga en ekki við sveitarfélög sem réðu til sín talmeinafræðinga.  Vinna við málið fór af stað í upphafi ársins og naut skólaþjónustan mikils og góðs liðsinnis starfsmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga, en uppfylla þurfti ákveðin skilyrði til að mögulegt væri að fá aðild að samningnum.

Þann 1. ágúst 2014 réði skólaþjónustan talmeinafræðing til starfa. Verkefni talmeinafræðingsins verða, auk lögbundinna greininga og ráðgjafar, almenn talþjálfun barna sem falla undir verksvið sveitarfélaga samkvæmt samningi sambandsins  og velferðarráðuneytisins, frá júni 2014, um verkaskiptingu vegna barna með málþroskavanda, en einnig barna með alvarlegri vanda sem eiga að fá þjálfun með kostnaðarþátttöku ríkisins.

Samningurinn gerir sveitarfélögum nú kleift að ráða talmeinafræðinga sem sinna, auk greininga og ráðgjafar, einnig mál- og talþjálfun leik- og grunnskólabarna. Þetta fyrirkomulag er sérstaklega hugsað til þess að mæta þörf fyrir talmeinaþjónustu víðs vegar um landið þar sem aðgengi að slíkri þjónustu hefur verið stopult.