Lestur ársreikninga

Fjárhagur 7. hluti

Í ársreikningi kemur fram yfirlit um rekstur sveitar-félagsins, fjárstreymi á árinu og stöðu efnahags í ársbyrjun og árslok. Einnig eru settar fram skýringar með ársreikningi. Í ársreikningi skal einnig birta niðurstöður ársreiknings frá fyrra ári svo og niður-stöður fjárhagsáætlunar fyrir árið eins og hún var afgreidd. Það er gert til að gefa kost á samanburði því niðurstöður eru alltaf afstæðar. Á hvaða leið er reksturinn? Hvernig er staðan borið saman við fyrri ár. Hvernig tókst að halda samþykkta fjárhagsáætlun? Í þessum kafla og nokkrum þeim næstu verður varið nokkrum orðum um einstaka þætti ársreiknings. Byrjað verður á rekstrarreikningi.

Rekstrarreikningur

Rekstrarreikningur sýnir samantekið yfirlit um það sem hefur gerst í daglegum rekstri sveitarfélagsins á síðasta starfsári. Hann samanstendur af nokkrum afmörkuðum hlutum. Þar getur bæði verið um að ræða raunverulegar tekjur og gjöld en einnig reikn-aðan kostnað sem ekki er útlagður á árinu. Þeir eru sem hér segir:  

 1. Tekjur
 2. Rekstrarkostnaður
  =Framlegð
 3. Afskriftir
  =Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði
 4. Fjármagnsliðir
  =Rekstrarniðurstaða af hefðbundnum rekstri
 5. Óreglulegir liðir
  = Rekstrarniðurstaða að teknu tilliti til óreglulegra liða

Hér verður farið nokkrum orðum um hvern og einn þátt rekstrarreiknings:

Tekjur

Tekjustofnar sveitarfélaga eru fastmótaðir og uppbygging þeirra er hin sama óháð stærð þeirra. Hlutdeild hvers tekjustofns getur á hinn bóginn verið mjög mismunandi milli einstakra sveitarfélaga.

Útsvarið er stærsti og mikilvægasti tekjustofn sveitarfélaga. Að jafnaði er útsvarið nálægt 60% af heildartekjum sveitarfélaganna en breytileikinn er töluverður eftir því hve útsvarsstofninn er sterkur.

Fasteignaskattur er næst mikilvægasti skattstofn sveitarfélaganna. Að jafnaði er hann 12-15% af heildartekjum sveitarfélaganna. Það er einnig verulegur breytileiki í mikilvægi hans milli sveitarfélaga. Það fer eftir því hve mikið er af fasteignum innan sveitarfélagsins. Sumarhúsahverfi, fasteignir tengdar virkjunum og stór iðnaðarmannvirki hafa veruleg áhrif á styrk fasteignaskattsstofnsins.

Tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er að jafnaði þriðji mikilvægasti skattstofn sveitarfélaganna. Að jafnaði eru greiðslur frá jöfnunarsjóðnum 12-13% af heildartekjum þeirra. Breytileiki er hins vegar mjög mikill milli einstakra sveitarfélaga eins og gefur að skilja. Það er eðli jöfnunarkerfa að þau hafi mismikil áhrif á einstakar einingar. Greiðslur úr jöfnunarsjóðnum vegna lítið hjá fjölmennustu sveitarfélögunum en hlutdeild tekna úr honum er á bilinu 25-40% hjá mjög mörgum sveitarfélögum. Nokkur fá hlutfallslega enn hærri greiðslur úr sjóðnum.

Þjónustutekjur eru að jafnaði um 15% af tekjum sveitarfélaga. Þjónustutekjur eru þær greiðslur sem greiddar eru fyrir margháttaða þjónustu sveitarfélagsins sem fellur undir A-hluta. Þar má t.d. leikskólagjöld, greiðslur fyrir þjónustu í grunnskólanum, s.s. fæði og lengda viðveru, aðgangseyrir í sundlaugar, leyfisgjöld svo nokkur dæmi séu nefnd.

Aðrar tekjur eru litlar eða um 1% heildartekna að jafnaði.

Gjöld

Almenn rekstrargjöld sveitarfélaga skiptast fyrst og fremst í tvo hluta, laun og launatengd gjöld og kaup á vörum og þjónustu. Hér er um að ræða útlagðan kostnað. Laun og launatengd gjöld samanstanda af greiddum launum og öllum launatengdum gjöldum svo sem tryggingargjaldi, greiðslum í lífeyrissjóð og fl. Kaup á vörum og þjónustu er allur annar breytilegur kostnaður sem fellur undir daglegan rekstur.

Mismunur tekna og gjalda er framlegð.

Reiknaðir liðir

Afskrift fastafjármuna og breyting á lífeyrisskuldbindingum eru reiknaðir liðir en ekki útlagðir. Þeir flokkast ekki sem útgjöld (greiddur kostnaður á árinu) heldur er hér um að ræða kostnað sem getur fallið með meiri þunga á einstök ár en önnur enda þótt hann sé færður árlega á rekstrarreikning. Í afskriftum felst árleg rýrnum á verðmæti fastafjármuna (mannvirkja og stærri tækjabúnaðar). Með afskriftum eru kostnaðar-reiknaðar þær fjárhæðir sem samanlagt eiga að nægja til að endurnýja viðkomandi fastafjármuni þegar að því kemur. Afskriftahlutfall getur verið mismunandi t.d. eftir byggingarformi en eru mjög áþekkar milli ára. Afskriftatími mannvirkis getur þannig verið á bilinu 40-50 ár. Þannig getur afskriftahlutfall á mannvirki verið á bilinu 2,5%% niður í 2,0%.

Breyting á lífeyrisskuldbindingum tekur mið af þeim breytingum sem eiga sér stað milli ára í þróun launa hjá viðkomandi starfstéttum svo og í lífaldri þeirra. Þannig geta lífeyrisskuldbindingar tekið mjög mismiklum breytingum milli ára. Áhrifin eru því einnig mismikil útgjaldalega séð á einstök rekstrarár eftir því hvenær lífeyrisskuldbindingar koma til útgreiðslu. Við samanburð á rekstrarniðurstöðu eru breytingar lífeyrisskuldbindinga taldar með launakostnaði.

Fjármagnsliðir

Fjármagnsliðir samanstanda bæði af reiknuðum liðum og tekjum/útgjöldum. Stærstur hluti reiknaðs fjármagnskostnaðar eru áhrif verðbótaþáttar lána þar sem áhrif verðtryggingar eru reiknuð út, hvort sem þau koma til útgreiðslu eða ekki. Þar sem um  erlend lán er að ræða eru áhrif gengisbreytinga reiknuð út, bæði til tekna og gjalda. Rauntekjur og kostnaður eru aftur á móti vaxtatekjur og greiddir vextir og verðbætur á árinu.

Niðurstaða þessa (tekjur að frádregnum gjöldum, afskriftum, breytinga á lífeyrisskuldbindingum og að teknu tilliti til fjármagnsliða) er rekstrarniðurstaða af hefðbundnum rekstri sveitarfélagsins. Til að jafnvægi sé í rekstrinum til lengri tíma litið þarf þessi niðurstaða að vera jákvæð. Hún gefur til kynna afkomu sveitarfélagsins af hefðbundnum rekstri þess (hefðbundnum tekjum og hefðbundnum rekstrarkostnaði). Það er hins vegar fleiri atriði sem þarf að halda til haga.

Óreglulegir liðir.

Hér er um að ræða tekju- eða útgjaldaliði sem falla ekki undir hefðbundinn rekstur sveitarfélagsins, koma sjaldan eða jafnvel bara einu sinni fyrir og hafa veruleg fjárhagsleg áhrif. Því þykir rétt að halda sérstaklega utan um þá í stað þess að fella þá inn í almennan rekstur sveitarfélagsins. Sem dæmi um slíkar tekjur má nefna sölu eigna. Þar getur verið um að ræða sölu lands, hlunninda eða fyrirtækja sem sveitarfélagið á hlutdeild í. Slíkt fellur ekki undir þá almennu starfsemi sveitarfélagsins að veita íbúunum þjónustu. Sala stórra eigna gerist yfirleitt mjög sjaldan. Fjárhagsleg áhrif geta hins vegar verið mikil. Ef slíkar fjárhæðir eru taldar með almennum tekjum sveitarfélagsins getur það t.d. brenglað allan samanburð á fjárhagslegri stöðu þess, bæði milli einstakra ára svo og í samanburði við önnur sveitarfélög. Útgjöld sem falla undir óreglulega liði er t.d. kostnaður sem fellur til vegna náttúruhamfara. Slíkur kostnaður fellur yfirleitt til mjög sjaldan og telst því ekki til reglubundinnar starfsemi sveitarfélagsins. Fjárhagsleg áhrif geta á hinn bóginn verið veruleg. Miklar afskriftir á útistandandi kröfum er annað dæmi um óreglulega liði.

Rekstrarniðurstaða að teknu tilliti til óreglulegra liða er síðan reiknuð út.