Mikilvægt að fylgjast með þróun móttöku flóttamanna í Evrópu

Sveitarfélög í flestum ríkjum Evrópu búa sig nú undir að taka á móti auknum fjölda flóttamanna. Hingað til hefur álagið vegna straums flóttamanna verið mjög misjafnt eftir löndum. Nýlegar samþykktir ESB um úthlutun flóttamannakvóta á aðildarríki munu væntanlega leiða til þess að flóttamenn munu dreifast meira niður á aðildarríki og alls staðar er litið til sveitarfélaga sem lykilaðila við móttöku þeirra. Málefni flóttamanna eru því mál málanna í evrópsku samstarfi sveitarfélaga. þau mun verða á dagskrá haustþings Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins sem haldið verður 20.-22. október nk. Halldór Halldórsson formaður sambandsins, Gunnar Axel Axelsson fulltrúi í stjórn sambandsins og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og Elín R. Líndal fulltrúi í sveitarstjórn Húnaþings vestra munu taka þátt í þinginu.

Evrópusamtök sveitarfélaga, CEMR, sem sambandið á aðild að, hafa líka sett flóttamannamálin á oddinn. Þau hafa sett á laggirnar aðgerðarhóp um málefni flóttamanna og í undirbúningi er að skipa pólitískan talsmann um málefni flóttamanna og innflytjenda sem myndi tala máli sveitarfélaga og héraða gagnvart pólitískum stofnunum ESB.

CEMR hefur þrýst á ESB að veita sveitarfélögum fjárhagslegan stuðning til að taka á móti flóttamönnum. ESB samþykkti nýlega að veita auknu fjármagni til málaflokksins, m.a. í sérstakan sjóð, Asylum, Migration and Integration Fund, sem sveitarfélög í ESB ríkjum munu geta sótt í. Mörg sveitarfélög eru þegar í afar erfiðri stöðu og geta ekki veitt flóttafólki viðunandi aðstoð. Þau þurfa í raun á neyðaraðstoð að halda og CEMR sendi nýlega út könnun til að fá yfirsýn yfir hvaða sveitarfélög eru í þeirri stöðu. Verst standa þau sem eru á landamærum Evrópu, s.s. í Ítalíu og Grikklandi en 200.000 manns komu til Grikklands á síðustu þremur mánuðum. Sveitarfélög í Þýskalandi og Svíþjóð eiga einnig í erfiðleikum með að tryggja viðeigandi húsnæði og félagsþjónustu. Þannig búa tugir þúsunda flóttamanna í Svíþjóð í bráðabirgðahúsnæði.

CEMR birti nýlega yfirlýsingu þar sem kallað er eftir auknu samráði ríkisstjórna og ESB við sveitarstjórnarstigið til að meta stöðuna, m.a. þörfina fyrir aukinn fjárstuðning. Einnig leggja samtökin áherslu á samstarf allra stjórnsýslustiga, og samvinnu við félagasamtök og íbúa til að tryggja flóttafólki viðeigandi aðstoð og gera því kleift að fóta sig í nýju landi.

Mikilvægt er að fylgjast með þróun í Evrópu á þessu sviði því ákvarðanir ESB hafa áhrif á Íslandi sem aðila að Schengen. Þannig gæti breyting á svokallaðri Dyflinnar-reglugerð, sem kallað er eftir, leitt til þess að Ísland geti ekki lengur endursent hælisleitendur til þess Evrópuríkis sem þeir komu til fyrst, eins og tíðkast hefur hingað til.