Frumvarp um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli

Sambandið hefur veitt umsögn um frumvarp sem lagt er fram af 15 stjórnarþingmönnum, þar sem lagt er til að ábyrgð á skipulags- og byggingarmálum á Reykjavíkurflugvelli færist frá Reykjavíkurborg til Alþingis. Hörð gagnrýni kemur fram í umsögninni á efni frumvarpsins og er það m.a. talið fara í bága við meginreglu stjórnskipunarréttar um þrískiptingu ríkisvalds. Sambandið telur jafnframt ótímabært að löggjafinn fjalli um svo alvarlegt inngrip í skipulagsvald á Reykjavíkurflugvelli í ljósi þess að nefnd, sem á að skila tillögum til innanríkisráðherra um framtíðarstaðsetningu flugvallarins, er enn að störfum.

Þörf á að endurskoða ákvæði stjórnarskrárinnar um stöðu sveitarfélaga

Af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga þykir frumvarpið gefa tilefni til þess að árétta hugmyndir sem sambandið hefur sett fram um að við næstu endurskoðun á stjórnarskránni verði bætt inn sérstökum kafla um stjórnskipulega stöðu sveitarfélaga. Mætti þar hafa hliðsjón af nýlegum ákvæðum í sænsku stjórnarskránni, m.a. nýju ákvæði sem kveður á um að takmörkun á sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga megi ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að ná því markmiði sem að er stefnt.

Þessi meðalhófsregla sænsku stjórnarskrárinnar felur í sér að meta þarf við hverja lagasetningu hvaða áhrif ákvæði frumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla hafa á sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga. Ef hægt er að ná markmiði laga eftir mismunandi leiðum á að velja þá leið sem takmarkar sjálfstjórnarréttinn minnst. Í lauslegri þýðingu hljómar greinin svo:

Takmörkun á sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga má ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að ná því markmiði sem stefnt er að.

Möguleg skaðabótaskylda ríkisins

Í umsögninni er bent á að í gildi eru samningar milli ríkisins og borgarinnar um Reykjavíkurflugvöll. Eins og fram kemur í umsögn Reykjavíkurborgar um sama mál virðist frumvarpið fara gróflega í bága við þá samninga. Sérfræðinga sambandsins rekur ekki minni til þess að löggjafinn hafi áður talið koma til álita að ógilda með lögum slíka samninga. Eins og bent er á í umsögn borgarinnar eru miklir hagsmunir í húfi og átelur sambandið þá léttúð gagnvart ábyrgum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem framlagning frumvarpsins sýnir. Jafnframt eru líkur á því að frumvarpið skapi ríkinu bótaskyldu gagnvart Reykjavíkurborg og einkaaðilum sem eiga hagsmuna að gæta á flugvallarsvæðinu.

Samræmi skortir við gildandi lög

Í umsögninni er bent á að við gerð frumvarpsins hafi ekki verið gætt nægilega vel að samræmi við lög um mannvirki og skipulagslög og fleiri augljósa annmarka. Sérstök ástæða sé til þess að umhverfis- og samgöngunefnd kalli fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Skipulagsstofnunar, Mannvirkjastofnunar og ISAVIA til þess að ræða stjórnsýsluframkvæmd og lagasamræmi áður en nefndin afgreiðir frumvarpið, en athygli vekur að enginn framangreindra aðila hefur sent inn umsögn um frumvarpið.

Að öllu framangreindu virtu telur Samband íslenskra sveitarfélaga ekki geta komið til álita að frumvarpið verði samþykkt enda eru á því augljósir og alvarlegir annmarkar eins og rakið er í umsögninni.