Nýr starfsmaður á kjarasviði

Margrét Sigurðardóttir hóf störf á kjarasviði sambandsins í lok apríl. Margrét er fædd árið 1960, hún er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst og er með diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Að auki er hún langt komin með meistaranám í opinberri stjórnsýslu við HÍ.

Margrét mun sjá um framkvæmd kjararannsókna og halda  utan um tölfræðilegan gagnagrunn kjarasviðs. Einnig mun hún annast ráðgjöf og leiðbeiningar til launafulltrúa og stjórnenda sveitarfélaga vegna launaútreikninga. Þá tekur þátt í kjaraviðræðum og kjarasamningagerð ásamt öðrum starfsmönnum sviðsins.

Margrét hefur víðtæka reynslu af sveitarstjórnar-málum. Hún var sveitarstjóri í Grímsnes- og Grafningshreppi árin 2003-2006 og í Flóahreppi tvö kjörtímabil frá 2006-2014. Þar tókst hún á við margvísleg verkefni sem munu nýtast henni vel í starfi sínu á kjarasviði sambandsins, m.a. hvað varðar umsjón með starfsmannahaldi, eftirfylgni með launaskráningu og kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaga og innsýn í lagaumhverfi sem þeim tengjast.

Margrét er fædd og uppalin á Selfossi og hefur búið á Suðurlandi nánast alla tíð og er mikil landsbyggðarkona. Hún á þrjú uppkomin börn, Bergþóru, Frey og Snæ Snæbjörnsbörn og fjögur barnabörn.

Við bjóðum Margréti velkomna til starfa.