Lestur ársreikninga

Fjárhagur - 5. hluti

Rekstur sveitarfélags er margþætt og vandasamt viðfangsefni. Gildir þá einu hvort um fjölmennt eða fámennt sveitarfélag er að ræða. Tekjur sveitarfélag eru tiltölulega fastmótaðar og fyrirfram ákveðnar en útgjöldin eru breytingum háð. Sveitarstjórn stendur sífellt frammi fyrir óskum og kröfum íbúanna um nýja, aukna og fjölþættari þjónustu. Ríkisvaldið leggur síðan sveitarfélögunum oft nýjar skyldur á herðar án þess að þær séu fjármagnaðar að fullu. Þeir einstaklingar sem kosnir eru í sveitarstjórn hverju sinni bera ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins. Gildir þá einu hvort um meiri- eða minnihluta er að ræða. Vitaskuld ber pólitískur meirihluti sveitarstjórnar framkvæmdalega ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins hverju sinni. Rekstrarleg ábyrgð minnihlutans felst í því að veita meirihlutanum eðlilegt aðhald hvað varðar fjárhagslega ákvarðanatöku og meðferð fjármuna.

Aðalatriði frá aukaatriðum

Í þessu sambandi er því afar mikilvægt fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórn að vera fær um að geta lesið úr niðurstöðum ársreikninga og túlkað niðurstöður þeirra sér til gagns. Það sama gildir um ákvörðun um fjárheimildir fyrir næsta rekstrarár og fjárhagsáætlun til næstu þriggja ára þar á eftir. Það er grundvallaratriði hvað varðar ákvarðanatöku um rekstrarútgjöld, stærri fjárfestingar og nýja lántöku að samhengi rekstrarafkomu og skuldbindinga liggi ljóst fyrir. Öll umræða við undirbúning og afgreiðslu fjárheimilda fyrir næsta ár verður markvissari og faglegri þegar kjörnir fulltrúar hafa öll helstu kennileiti við fjármálastjórn sveitarfélagsins á valdi sínu. Sama gildir um umræðu við afgreiðslu ársreiknings.

Mörgum kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn finnst ársreikningur sveitarfélaga vera flókinn og erfiður aflestrar. Í miklu talnaflóði er oft erfitt að greina aðalatriðin frá aukaatriðunum. Það er með þetta verkefni eins og önnur að nauðsynlegt er að átta sig á því sem mestu máli skiptir. Aukin lestrarfærni og skilningur á þeim upplýsingum sem koma fram í ársreikningi sveitarfélagsins kemur síðan með reynslunni. 

Ársreikningur samanstendur af fjórum megin liðum. Þeir eru:

  1. Rekstrarreikningur
  2. Efnahagsreikningur
  3. Sjóðstreymi
  4. Skýringar.

Ákvörðun um fjárheimildir fyrir næsta rekstrarár er í öllum grundvallaratriðum sett upp á sama formi og ársreikningur nema að skýringar eru unnar á annan hátt en með ársreikningi.

Í næstu tölublöðum Tíðinda verður farið yfir hvern lið ársreiknings sbr. ofantalið og þeir skýrðir nánar út.