XXIX. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga

XXIX. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið í Salnum í Kópavogi föstudaginn 17. apríl sl.

Í setningarávarpi sínu sagði Halldór Halldórsson, formaður sambandsins að hann fagnaði nýjum kjarasamningi við grunnskólakennara og vinnumati honum tengdu. Hann sagði samninginn auka sjálfstæði skólasamfélagsins og vonaði að þær verulegu launahækkanir sem kjarasamningurinn felur í sér hvetji ungt fólk til að mennta sig til starfsins.

Helstu viðfangsefni landsþingsins að þessu sinni voru m.a. lýðræði og efling sveitarstjórnarstigsins, svæðasamvinna, kosningalöggjöfin og staða endurmats á flutningi málefna fatlaðs fólks.

Halldór sagði í ræðu sinni að umræðan um svæðasamvinnu yrði að taka mið af framtíðaráskorunum sveitarfélaga og að sveitarstjórnarmenn þyrftu að líta lengra fram í tímann en bara til yfirstandandi kjörtímabils.

Það er fyrirséð að velferðarþjónustan á eftir að þyngjast og verða dýrari vegna öldrunar íbúa næstu áratugina og líka vegna þess að þróunin er í þá átt að íbúar eru að gera stöðugt meiri kröfur um þjónustu sem er sniðin að þeirra einstaklingsbundnu þörfum.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp á landsþinginu. Hún kom víða við í ræðu sinni, hvatti sveitarstjórnarmenn m.a. til að meta með hvaða hætti væri unnt að fagna því að 100 ár eru frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi.

Einnig sagði hún að minnkandi kosningaþátttaka væri mikið áhyggjuefni, sérstaklega kosningaþátt-taka ungs fólks. Góð kjörsókn er mikilvægur þáttur í lýðræðissamfélagi. Því er mikilvægt að skoða hvers vegna þessi þróun á sér stað. Ráðuneytið lét rannsaka þetta eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar og þar kom glögglega í ljós að yngra fólk er síður að nýta sér kosningarétt sinn en þeir eldri. Unga fólkið sagði m.a. að atkvæðið þeirra skipti ekki máli og að engin flokkur höfðaði til þeirra. Ráðherra sagðist í ræðu sinni vilja að innanríkisráðuneytið og sambandið vinni að því að skoði þetta betur og hjálpast að við að finna leiðir til að auka kosningaþátttöku ungs fólks.