Veflæg upplýsingaveita


Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmála-ráðherra, opnaði formlega, þann 19. mars sl., upplýsingaveitu fyrir fræðslutilboð sem ætluð eru kennurum, skólastjórnendum, kennslu-, náms- og starfsráðgjöfum í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum.

Markmið upplýsingaveitunnar er tvíþætt, annars vegar að miðla og hins vegar að veita yfirsýn. Vonast er til að sem flest fræðslutilboð sem ætlað er að styrkja umræddar starfsstéttir faglega og stuðla þannig að starfsþróun þeirra verði birt á upplýsingaveitunni s.s. námskeið, fyrirlestrar, ráðstefnur, málþing og samstarfsverkefni. Með því móti verða þau aðgengileg fyrir væntanlega þátttakendur en færir einnig fræðsluaðilum og öðrum mikilvægar upplýsingar um hvað er í boði og á hvaða sviðum skortir framboð. Auðvelt er að leita í upplýsingaveitunni og eru fræðslutilboðin sérstaklega merkt útfrá skólastigum, skólagerðum, viðfangsefnum og formi kennslunnar.  

Ef vel tekst til verður upplýsingaveitan fastur viðkomustaður skólafólks í nánustu framtíð. Fræðsluaðilar munu setja þar inn efni endurgjaldslaust. Til að byrja með verða það háskólarnir sem mennta kennara sem setja inn efni en öðrum gefst kostur á að bætast í hópinn á næstunni.

Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara stendur að upplýsingaveitunni og er Upplýsingaveitan staðsett á vef fagráðsins: www.starfsthrounkennara.is.