Skrifað undir samning um aukið samstarf


Á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga, sem haldinn var 15. apríl sl. skrifaði Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, ásamt fjármála- og efnahagsráðherra og borgarstjóranum í Reykjavík undir samkomulag um aukið samstarf opinberra vinnuveitenda í kjaramálum.

Samkvæmt samkomulaginu er sett á laggir kjaramálaráð, sem hefur það hlutverk að vera ráðgefandi gagnvart aðilum samkomulagsins og skal það stuðla að samhæfingu við gerð kjarasamninga. Í kjaramálaráði sitja fjórir fulltrúar, einn fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn fulltrúi Reykjavíkurborgar og tveir fulltrúar fjármála- og efnahagsráðherra.

Helstu verkefni kjaramálaráðs eru að að greina almennar efnahagsforsendur og gera tillögu um sameiginlega stefnu varðandi svigrúm til launahækkana og vera vettvangur upplýsingagjafar og samráðs varðandi almenn samskipti aðila á vinnumarkaði og mál sem varða réttindi opinberra starfsmanna, s.s. lífeyrismál. Einnig á það að fjalla um meginþætti kjarastefnu aðila og gera tillögu um sameiginlegar áherslur og markmið við kjarasamningsgerðina.

Samkomulagið er til tveggja ára og litið er á það sem nokkurs konar tilraunaverkefni. Ríki og sveitarfélög hafa haft ákveðið samstarf í kjaramálum undanfarin ár en með samkomulaginu er markmiðið að efla það til muna.