Úrskurður um sorphirðu í Reykjavík

Þann 27. mars sl. kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp áhuga-verðan úrskurð um framkvæmd sorphirðu (mál nr. 17/2013). Í málinu kærði íbúi í Breiðholti þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að leggja sorphirðugjald á fasteign sína, með vísan til þess að hann hefði afpantað þjónustu borgarinnar og gert samning við Gámaþjónustuna um að annast alla sorphirðu frá heimili hans. Taldi kærandi sig vera í fullum rétti að kaupa þessa þjón-ustu af einkaaðila, sem gæti betur uppfyllt þarfir hans og hafi gilt starfsleyfi. Í svari borgarinnar til íbúans kom fram að ekki væri hægt að afpanta þessa þjónustu, með vísan til samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg.  Kærði íbúinn þá álagninguna og byggði kæran á því að ólögmætt hljóti að vera að innheimta þjónustugjald fyrir þjónustu sem hafi verið afþökkuð.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar er kröfu kæranda um ógildingu álagningarinnar hafnað. Í úrskurðinum segir m.a.:

„Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki og að sama skapi verður íbúum ekki í sjálfsvald sett hvort að þeir nýta sér þjónustuna eða ekki.“

Þá vísar nefndin til þess að í samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg segi að borgin sjái um söfnun á blönduðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum og hafi umsjón með rekstri grenndarstöðva fyrir flokkaðan heimilisúrgang. Einnig vísar borgin til þess að sorphirðugjald er ákvarðað sem jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Borginni hafi því verið heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald skyldi lagt á fasteign kæranda enda þurfi að lágmarki að vera eitt sorpílát fyrir blandaðan heimilisúrgang við hvert íbúðarhús. Kröfu kærða um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar var því hafnað.