Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara

Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara var stofnað með skipunarbréfi þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra 27. febrúar 2013. Stofnun þess kom í kjölfar vinnu samstarfsnefndar um símenntun og starfsþróunar kennara sem lauk störfum í október 2012 þar sem lagt var til að stofnað yrði fagráð til að koma samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands (HÍ), Háskólans á Akureyri (HA) og Listaháskóla Íslands (LHÍ) í formlegan farveg.

Fagráðið er skipað 20 fulltrúum, þremur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjórum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fimm frá skólastjórnendum, fjórum frá kennurum og þremur frá háskólunum sem standa að kennaramenntun (HÍ, HA, LHÍ). Á vegum fagráðs starfar fimm manna stýrihópur og einnig vinna smærri hópar að ákveðnum málefnum. Sólrún Harðardóttir er starfsmaður fagráðs og er starfshlutfall hennar 50%.

Markmið fagráðsins er að vinna að verkefnum á sviði símenntunar og starfsþróunar kennara og skólastjórnenda í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum. Þannig stuðlar fagráðið að samræðu hagsmunaaðila og fær þá til að sameinast um leiðir og áherslur í starfsþróun kennara. Fagráðinu er meðal annars ætlað að tryggja upplýsingaflæði, ýta undir faglegar rannsóknir og umræðu og leiða erlenda umræðu til Íslands.

Nánari upplýsingar um fagráðið er að finna á vef fagráðsins. Þar er meðal annars skilgreining á hugtakinu „starfsþróun“ og fundargerðir fagráðs.