Sameining eða samstarf


Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs, og Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík fluttu erindi á landsþinginu undir yfir-skriftinni „Samstarf eða sameiningar sveitarfélaga“. Þau fjölluðu um þróun sveitarstjórnarstigsins síðustu ár og hvaða afleiðingar það hefur haft að áherslan hefur færst frá sameiningum sveitarfélaga til samstarfs. Þau bentu á nokkur atriði sem gætu gert svæðasamstarf skilvirkara.

  1. Fækka sveitarfélögum sem eru aðilar að samstarfinu með sameiningum.
  2. Hafa lágmarksíbúatölu í sveitarfélögum.
  3. Einn skóli, eitt sveitarfélag.
  4. Þegar jöfnunarframlög eru orðin, t.d. 50% af skatttekjum sveitarfélags verði því gert skylt að sameinast öðru.
  5. Skýra umhverfi samstarfsverkefna enn betur en gert er í núgildandi lögum.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og Regína Ásvaldsdóttir, bæjar-stjóri á Akranesi fjölluðu um lýðræðislega stöðu sveitarfélaga og það hvort þau séu í stakk búin að taka að sér fleiri verkefni.

Gunnar Helgi sagði að þrátt fyrir að sveitarfélögum hafi fækkað töluvert þá sé ekki eðlilegt að 10% íbúa búi í 72% sveitarfélaganna. Hann sagði að rök fyrir sameiningu sveitarfélaga hafi hingað til snúist um rekstrarlegt hagræði og það séu sterk rök að ákveðnu marki. Það sem hafi ekki fengið nægilega athygli í þessari umræðu sé lýðræðishallinn sem verður til við að færa verkefni í byggðasamlög ofl. Annar vandi sé skortur á faglegri stjórnsýslu í mörgum smáum sveitarfélögum og skortur á faglegum stuðningi við hina pólitísku forystu.

Regína sagði m.a. í erindi sínu að á Íslandi væru tæplega 30% verkefna hins opinbera á vegum sveitarstjórnarstigsins en á bilinu 40-60% í flestum öðrum norrænum ríkjum. Hún sagði vilja flestra standa til þess að færa fleiri verkefni til sveitarfélaga en miðað við fjölda fámennra sveitarfélaga á Íslandi í dag og fjárhagslega stöðu þeirra þá sé það ekki mögulegt. „Við stöndum frammi fyrir tveimur kostum; að fækka verkefnum eða fækka sveitarfélögum,“ sagði Regína.