Um matarsóun

Matarsóun er allt of mikil í heimi þar sem 1 milljarður manna er ennþá vannærður og 1,3 milljarðar tonna af matvælum, eða um 40% allrar framleiðslu, fara til spillis. Matarsóun er mikil á öllum stigum framleiðslu og neyslu og er auðlindasóun, t.d. á vatni sem nú er þegar af skornum skammti víða í veröldinni. Betri stýring á matvælaframleiðslu mun einnig draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á síðastliðnum tíu árum hefur þó orðið mikil vakning og aðgerðir eru hafnar víða til að stemma stigu við vaxandi matarsóun.

Á Degi umhverfisins 22. apríl sl. var kynnt skýrsla starfshóps um matarsóun sem umhverfis- og auðlindaráðherra hafði stofnað sl. haust. Í starfshópnum sátu auk formanns úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fulltrúar Umhverfis- og Matvælastofnunar, frá samtökum iðnaðarins, ferðaþjónustu, verslunar og þjónustu, Bændasamtaka, Kvenfélagasambands, Landverndar, samtaka Vakandi og Sambands íslenskra sveitar-félaga. Starfshópurinn leggur til aðgerðir í 12 liðum sem snúa að ítarlegum rannsóknum á matarsóun á Íslandi, upplýsingagjöf til almennings um hvernig minnka megi matarsóun, framleiðslu, dreifingu, sölu og geymslu matvæla. Athygli mun m.a. beinast að matarsóun í stóreldhúsum og skólum. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.