Innleiðing vinnumats hafin


Nýr kjarasamningur og vinnumat grunnskólakennara hlutu samþykki í atkvæðagreiðslu samningsaðila í lok febrúar sl. Með vinnumati og öðrum breytingum á vinnutímaákvæðum kjarasamningsins skapast tækifæri til að jafna verkefnaálag milli kennara. Með samningnum opnaðist jafnframt möguleiki kennara til þess að afsala sér afslætti á kennsluskyldu við 55 og 60 ára aldur. Ríflega 80% kennara hafa notfært sér þennan möguleika og verður það til þess að leysa þörf fyrir allt að 400 ný stöðugildi kennara sem skapast hefði á næstu átta árum.

Framundan eru spennandi tímar þar sem innleidd er ný hugsun um skilgreiningu og mat á verkefnum og vinnutíma kennara sem áhrif mun hafa á  starfshætti í grunnskólanum og efla skólaþróun. Af niðurstöðu atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn má ráða að nokkur hluti kennarahópsins virðist ekki vera sannfærður um ágæti vinnumatsins, þrátt fyrir þær miklu launahækkanir sem felast í samþykkt þess. Einungis 66% þátttaka var í atkvæðagreiðslunni og þar af samþykktu tæp 60% samninginn. Hafa þarf í huga að gildistími samningsins er aðeins til 31. maí 2016.

Mikil ábyrgð hvílir á herðum skólastjóra við inn-leiðingu vinnumatsins en hún hvílir ekki síður á sveitarstjórnarfólki. Skólanefnd og sveitarstjórn þurfa að standa þétt við bak sinna skólastjórnenda í innleiðingarferlinu á komandi skólaári og leggja sitt af mörkum við forgangsröðun verkefna á grundvelli eigin skólastefnu. Þannig aukast líkur á því að bæði fjárhagslegum og faglegum markmiðum samningsins verði náð.

Sérstök verkefnisstjórn, sem er ráðgefandi vegna innleiðingar vinnumatsins, ber ábyrgð á upplýsingavef um vinnumatið og framkvæmd þess á slóðinni www.vinnumat.is. Þar má m.a. finna gögn í tengslum við námskeið fyrir skólastjórnendur sem haldin hafa verið undanfarið, upplýsingamyndbönd frá Félagi grunnskólakennara um vinnumatið og margvíslegt annað efni. Hægt er að senda inn fyrirspurnir til verkefnisstjórnar á netfangið vinnumat@vinnumat.is. Þá eru sveitarstjórnarmenn hvattir til þess að kynna sér upplýsingarit um kjarasamninginn sem gefið var út í tengslum við landsþing sambandsins, 17. apríl sl.