Nokkrar mikilvægar kennitölur

Þessar vikurnar eru sveitarstjórnir almennt að ganga frá afgreiðslu ársreiknings fyrir árið 2014.  Ársreikningur sveitarfélags er í augum margra, sem eru óvanir að lesa úr ársreikningum, óskaplegt talnaflóð sem erfitt sé að átta sig á. Það er ekkert skrítið að það vaxi þeim í augum, sem eru nýlega farnir að bera ábyrgð á rekstri síns sveitarfélags, að lesa ársreikninginn sér til gagns. Það tekur ákveðinn tíma að ná tökum á þeim hugtökum, upplýsingum og niðurstöðum sem er að finna í ársreikningi. Fyrir þá sem eru óvanir að lesa úr ársreikningi er á hinn bóginn hægt að byrja á að glöggva sig á nokkrum mikilvægustu kennitölunum og fá á þann hátt tilfinningu fyrir því sem mestu máli skiptir um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Síðan er alltaf hægt að byggja ofan á það með tímanum. Hér er gefið stutt yfirlit um nokkrar kennitölur sem segja mjög mikið um fjárhagsstöðu hvers sveitarfélags.

Veltufé frá rekstri

Veltufé frá rekstri kemur fram í sjóðstreymi. Það gefur upplýsingar um hver há fjárhæð er eftir af heildartekjum sveitarfélagsins þegar búið er að borga allan daglegan rekstur s.s. laun og kaup á vörum og þjónustu. Ekki er tekið tillit til reiknaðra liða s.s. afskrifta eða breytinga á lífeyrisskuldbindingum. Veltufé frá rekstri á þannig að standa undir afborgunum lána annars vegar og nýtast hins vegar til fjárfestinga. Ef veltufé frá rekstri er neikvætt þá standa heildartekjur ekki undir heildarútgjöldum og ekkert er eftir til að greiða afborganir eða til að leggja í fjárfestingar.

Veltufé frá rekstri sem hlutfall af heildartekjum

Mjög einfalt er að bera saman stöðu einstakra sveitarfélaga með því að bera saman hve hátt hlutfall veltufé frá rekstri er af heildartekjum sveitarfélagsins. Því hærra sem hlutfallið er því betri er rekstrarafkoma sveitarfélagsins.

Landsmeðaltal veltufjár frá rekstri sem hlutfall af heildartekjum A-hluta árið 2013 var 10,2%.

Veltufé frá rekstri deilt upp í langtímalán

Hægt er að átta sig á hve auðvelt sveitarfélagið á með að greiða afborganir lána með því að deila veltufé frá rekstri upp í heildarlangtímaskuldir. Útkoman gefur til kynna hve það tekur sveitarfélagið mörg ár að greiða niður langtímalán miðað við óbreytt veltufé frá rekstri. Því færri ár sem það tekur því betra. Niðurstaðan gefur til kynna hver fjárhagslegur stöðugleiki sveitarfélagsins er. Það getur verið erfitt að greiða afborganir lána ef veltuféð er lítið sem ekki neitt jafnvel þótt heildarskuldir séu lágar. Á sama hátt getur það verið auðvelt fyrir sveitarfélag að greiða af háum lánum ef veltuféð er hátt.  Því skuldsettara sem sveitarfélagið er því meiri kröfur þarf að gera um hátt veltufé frá rekstri  

Veltufjárhlutfall (Veltufjármunir deilt með lausaskuldum)

Veltufjármunir eru lausafé, bankainnistæður og skammtímakröfur sem líklegt er að verði greiddar innan ársins. Lausaskuldir eru þær skuldir sem þarf að greiða innan ársins. Veltufjárhlutfall eða hlutfall milli veltufjármuna og lausaskulda þarf helst að vera 1 eða hærra, þ.e.a.s. veltufjármunir þurfa að vera jafnháir lausaskuldum eða hærri. Góð veltufjárstaða leiðir af sér að það er auðveldara að greiða reikninga á gjalddaga en ella. Við greiningu á niðurstöðum ársreikninga kemur í ljós að þar sem veltufjármunir eru mun lægri en lausaskuldir þá er vaxtakostnaður mun hærri en þar sem hlutfallið er hagstæðara. Miklar lausaskuldir leiða af sér að það er erfiðara að greiða alla reikninga á gjalddaga. Í þeirri stöðu eru dráttarvextirnir fljótir að skjóta upp kollinum í rekstrinum.