Þjónusta við fatlað fólk

Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 27. febrúar sl. var m.a. fjallað um samþykkt stjórnarfundar Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks, dags. 23. febrúar 2015, þar sem því er beint til aðildarsveitarfélaganna að óska eftir viðræðum við velferðarráðuneytið um að ríkið taki við málaflokki fatlaðs fólks á Vestfjörðum úr höndum sveitarfélaga vegna aðstæðna sem upp eru komnar og eru frekar skýrðar í samþykktinni.

Á fundi stjórnar sambandsins greindi framkvæmdastjóri sambandsins  frá störfum verkefnisstjórnar um endurmat á yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk sem fundar nú vikulega og stefnir að því að skila niðurstöðum fyrir lok apríl nk. Fjallað verður um endurmatsvinnuna á stjórnarfundi sambandsins 27. mars nk. og einnig á landsþingi sambandsins sem haldið verður 17. apríl nk.

Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða á fundinum:

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsir yfir áhyggjum af þeirri þróun, sem margir sveitarstjórnarmenn hafa greint frá undanfarið, að ekki sé næg fjármögnun til að standa undir útgjöldum við þjónustu við fatlað fólk.

Sveitarfélögin hafa lagt metnað sinn í að standa vel að þessari þjónustu og mikilvægt er að endurmatið taki mið af því og að ekki verði horfið til baka í þeirri viðleitni. Stjórn sambandsins leggur áhersla á, að niðurstöður endurmatsins leiði til þess að framtíðarfjármögnun þjónustunnar verði tryggð og ekki þurfi að koma til þess að sveitarfélögin verði að skila verkefninu aftur til ríkisins. Að sama skapi er áríðandi að útkoma endurmatsins, og samningaviðræðna á grundvelli þess, liggi fyrir sem fyrst til að draga úr þeirri óvissu sem skapast hefur í málaflokknum vegna vanfjármögnunar hans.

Náist ekki niðurstaða fyrir mitt þetta ár um fullnægjandi fjármögnun þjónustunnar til framtíðar, að mati stjórnar sambandsins, verði þegar hafist handa við að undirbúa það að ríkið taki málaflokkinn aftur til sín frá næstu áramótum.