Starfsþróun kennara - greining á sjóðaumhverfi

Út er komin skýrslan Starfsþróun kennara – greining á sjóðaumhverfi sem Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri vann fyrir Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara.

Markmið skýrslunnar er að varpa ljósi á þau tækifæri sem kennarar hafa til starfsþróunar og hversu miklum fjármunum er veitt til hennar. Þegar talað er um kennara í skýrslunni er víðast átt við skólastjórnendur líka og ráðgjafa, þ.e. náms- og starfsráðgjafa og aðra ráðgjafa s.s. sérkennslu- og kennsluráðgjafa. Greiningin tekur til sjóða sem stóðu leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólakennurum til boða árin 2012 og 2013. Auk þess var skoðuð aðkoma ríkis, sveitarfélaga og háskólastofnana að starfsþróun kennara. Vinnan fór fram á tímabilinu febrúar til maí 2014 og aftur í desember 2014 og byggir á þeim upplýsingum sem fengust frá viðeigandi aðilum.

Niðurstöður skýrslunnar eru ekki tæmandi en gefa góða mynd af því hvaða sjóðir styðja starfsþróun kennara í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum, hvers konar starfsþróun er styrkt og hversu miklum fjármunum er varið í málaflokkinn. Ljóst er að sjóðaumhverfi vegna starfsþróunar kennara, skólastjórnenda og ráðgjafa innan skólakerfisins er margslungið og umtalsverðum fjárhæðum er varið til þessara mála í samfélaginu.