Er eðlilegt að sveitarfélög greiði rekstrarkostnað ríkisstofnana?

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála

Markmið ofangreindu frumvarpi er að færa inn í lög um stjórn vatnamála ákvæði um gjaldtöku fyrir vatnsþjónustu. Vatnsþjónusta er skv. frumvarpinu fólgin annars vegar í vatnstöku, miðlun, geymslu, hreinsun eða dreifingu yfirborðs- og grunnvatns, og hins vegar í söfnun skólps og hreinsun þess.

Markmið fyrirhugaðrar gjaldtöku er að fjármagna kostnað Umhverfisstofnunar við framkvæmd laganna, svo sem gerð vatnaáætlunarinnar og fleiri áætlana. Greiðendur gjalds fyrir vatnsþjónustu eru vatns- og jarðvarmavirkjanir, stærri vatns- og hitaveitur, svo og fráveitur sem við taka við meira en 2000 persónueiningum, þ.e. fráveitur allra helstu þéttbýlisstaða á landinu.

Sambandið hefur í umsögn sinni um frumvarpið mótmælt því harðlega að sveitarfélög og fyrirtæki þeirra sem sinna almannaþjónustu eigi að greiða kostnað ríkisstofnunar við framkvæmd laganna og bent m.a. á hættulegt fordæmi sem er fólgið í þessu. Sömuleiðis hafa Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja og Samtök atvinnulífsins lagst eindregið gegn samþykkt þessa frumvarps.

Heimild til þessarar gjaldtöku er sótt í 9. gr. tilskipunar ESB um stjórn vatnamála. Þar sem ekki er skylda til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar um gjaldtöku var það ekki gert við innleiðingu hennar með téðum lögum um stjórn vatnamála. Ríkisvaldið lítur hins vegar svo á að notendur vatnsauðlindarinnar eigi að greiða fyrir notkun hennar og því til stuðnings er vísað í nytjagreiðslu- og mengunarbótareglurnar. Þessi rök telja sambandið, Samorka og Samtök atvinnulífsins vera hriplek.