Evrópsk peningavika

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), sem Lánasjóður sveitarfélaga ohf. er aðili að, eru meðal þátttakenda í evrópskri peningaviku, sem stendur yfir dagana 9.-13. mars. Markmiðið með vikunni er að vekja athygli á mikilvægi eflingu fjármálalæsis meðal ungmenna í Evrópu.

Mánudaginn 9. mars hélt Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, ásamt fleirum erindi í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi en þar var einnig fréttastofa RUV sem gerði stutt innslag um kynninguna.

SFF eru eitt þeirra tuttugu aðildarfélaga Evrópsku bankasamtakanna sem standa að Evrópsku peningavikunni sem fram fer í fyrsta sinn vikuna  9. til 13. mars næstkomandi. Með þessari viku vilja Evrópsku bankasamtökin og aðildarfélög þeirra leggja sín lóð á vogarskálarnar til eflingar fjármálafræðslu ungmenna og stuðla að umræðu og vitundarvakningu um mikilvægi þess.

Í tengslum við Evrópsku peningavikuna munu SFF kynna Fjármálavit en það er kennsluefni sem hefur verið þróað af sérfræðingum aðildarfélaga SFF  í samstarfi við kennara og kennaranema. Markmiðið er að Fjármálavit nýtist kennurum í grunnskólum í kennslu um fjármál en það byggir á myndböndum og verkefnum þeim tengdum. Í peningavikunni munu starfsmenn aðildarfélaga SFF heimsækja grunnskóla og kynna Fjármálavit fyrir nemendum og kennurum.

Nánar má fræðast um Fjármálavit á heimasíðu verkefnisins sem og á Facebook-síðu þess.  Á þessum síðum má meðal annars finna skilaboð Páls Óskar Hjálmtýssonar, tónlistarmanns, en hann er verndari Fjármálavits.