Náum áttum

Forvarna og fræðsluhópur um velferð barna og unglinga

Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur sem skipuleggur morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna.  Í hópnum eiga sæti fulltrúar nokkurra stofnana og félagasamtaka sem ákveða saman fundarefni og skipuleggja dagskrá fundanna og útvega einnig fyrirlesara og aðstöðu.

Fyrstu fundir Náum áttum voru haldnir árið 2000 en síðan þá hafa um 70 fundir verið haldnir  við góðar undirtektir hinna ýmsu fag- og leikmanna en fundina hafa sótt að meðaltali 70 - 80 manns. Á þessum tíma hafa yfir 200 fyrirlestrar verið fluttir og bæði fræðimenn, stjórnamálamenn, foreldrar, ungmenni og sérfræðingar á ýmsum sviðum komið við sögu. Það sem hefur einkennt fundina er góð stemning og hversu fjölbreyttur hópur hefur sótt þá.

Upplýsingar um alla fundina má finna á heimasíðu Náum áttum og þar  má einnig nálgast upptökur af síðusstu fundum og ítarefni eins og glærur með fyrirlestrum, upplýsingar sem og skráningarform fyrir fundina.

Næsti fundur verður haldinn á Grand Hóteli í Reykjavík miðvikudaginn 18. mars en þá verður fjallað um geðheilbrigði barna, viðbrögð, úrræði og nýjar leiðir.