Síðasti möguleiki til að komast á námskeið fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórn

Sambandið hefur í vetur staðið fyrir níu námskeiðum fyrir nýkjörna sveitarstjórnarmenn, hvort sem þeir eru nýir í sveitarstjórn eða ekki. Tvö námskeið voru haldin á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra og Suðurlandi og eitt námskeið á Vesturlandi, Norðurlandi vestra og Austurlandi. Reynt sveitarstjórnarfólk, þau Smári Geirsson, Fjarðabyggð, og Svanfríður Inga Jónasdóttir Dalvíkurbyggð, hafa skipst á um að stýra námskeiðunum en auk þeirra hafa sérfræðingar sambandsins á fjármála- og lögfræðisviði verið leiðbeinendur.

Ákveðið hefur verið að síðasta námskeiðið verði haldið í Reykjavík, daginn eftir landsþing sambandsins, þ.e. laugardaginn 18. apríl, og að það verði opið sveitarstjórnarmönnum af öllu landinu. Reynslan hefur einnig sýnt að framkvæmdastjórar sveitarfélaga og nefndarformenn hafa talið sig eiga erindi á námskeiðin.

Á námskeiðinu er farið yfir hlutverk sveitarstjórnarmanna, stjórnkerfi sveitarfélaga og réttindi, skyldur og ábyrgð sveitarstjórnarmanna, fjármál sveitarfélaga, stjórntæki sveitarstjórna og samskipti og samstarf. Í tilefni námskeiðanna hefur verið gefið út fræðslurit: „Að vera í sveitarstjórn“, sem þátttakendur fá. Alls hafa 206 tekið þátt í námskeiðunum og samkvæmt matssvörum eru þátttakendur mjög ánægðir með þau. Skráning á námskeiðið verður á www.samband.is og verða nánari upplýsingar þar að finna.