Íbúakosningar í Sveitarfélaginu Ölfusi

Á síðastliðnu ári óskaði bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss eftir því að taka þátt í tilraunaverkefni Þjóðskrár Íslands um rafrænar íbúakosningar.

Í X. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er fjallað um samráð sveitarstjórna við íbúa. Er þar meðal annars kveðið á um að sveitarstjórn geti ákveðið að halda sérstakar íbúakosningar um einstök málefni sveitarfélagsins, sbr. 107. gr. og 2. mgr. 108. gr. laganna. Slík atkvæðagreiðsla er ráðgefandi fyrir sveitarstjórn nema hún ákveði að niðurstaðan bindi hendur hennar til loka kjörtímabilsins. Samkvæmt sérstöku bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlögin getur sveitarstjórn óskað eftir því við ráðherra að íbúakosningar fari eingöngu fram með rafrænum hætti.

Kveikjan að beiðni Sveitarfélagsins Ölfuss um þátttöku í tilraunaverkefninu var erindi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar með ósk um viðræður um mögulega sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Innanríkisráðherra heimilaði í desember sl. að íbúakosningarnar í Ölfusi yrðu eingöngu með rafrænum hætti og síðar var veitt heimild til þess að kosningaaldur yrði færður niður í 16 ár.

Nú hefur verið ákveðið, að íbúakosningarnar í Ölfusi fari fram dagana 17. til 26. mars næstkomandi. Kosningarrétt eiga allir íbúar sveitarfélagsins sem falla undir ákvæði 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna með þeirri undantekningu frá ákvæðum laganna að kosningarréttur miðast við 16 ára aldur, en ekki 18 ár.

Í rafrænu íbúakosningunum í Ölfusi verður spurt þriggja spurninga:

Spurning 1

Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss ræði við annað sveitarfélag eða sveitarfélög um sameiningu?

 • Hlynnt(ur) viðræðum
 • Andvíg(ur) viðræðum

Spurning 2

Ef meirihluti íbúa er hlynntur viðræðum, við hvaða sveitarfélag ætti Ölfus helst að ræða? (Sé fyllt í valkosti má velja eitt eða fleiri sveitarfélög)

 • Árborg
 • Hveragerði
 • Grindavík
 • Annað sveitarfélag

Spurning 3

Hvaða tímasetningu telur þú heppilegasta/besta fyrir Hafnardaga?

 • Sjómannadagshelgi
 • Júní eftir sjómannadag
 • Júlí
 • Verslunarmannahelgi
 • Ágúst eftir verslunarmannahelgi
 • September til maí

Sá sem greiðir atkvæði og hakar ekki við neinn svarmöguleika í einni eða fleirum spurningum telst hafa skilað auðu í viðkomandi spurningu. Hver þátttakandi getur kosið oftar en einu sinni og mun síðast greidda atkvæðið verða talið þegar kosningu lýkur.

Áhugavert er að í kosningakerfinu verða spurningarnar og svarmöguleikarnir á fjórum tungumálum. Auk íslensku geta þátttakendur valið spurningar á ensku, pólsku og tælensku. Er þetta gert með tilliti þess fjölda íbúa í sveitarfélaginu sem eru af erlendu bergi brotnir.

Íbúar með kosningarrétt í Sveitarfélaginu Ölfusi þurfa að vera með rafræn skilríki eða svokallaðan Íslykil til þess að geta tekið þátt í kosningunni. Eigi menn hvorugt er mjög auðvelt að bæta úr því, t.d. með því að fá Íslykil sendan í heimabanka.  Eins er hugað vel að þörfum þeirra sem eru lítt tæknilega sinnaðir, þeir geta mætt á bókasafnið og fengið aðgang að tölvu og nauðsynlega tæknilega aðstoð til að kjósa.

Það er Þjóðskrá Íslands sem annast framkvæmd rafrænu íbúakosninganna. Þjóðskrá hefur samið við spænska fyrirtækið Scytl, sem er leiðandi í þróun rafræns kosningakerfis á heimsvísu. Fyrirtækið  hefur þróað rafrænt kosningakerfi frá 2001 og í raun fyrr, þar sem stofnendur þess voru framarlega í hönnun dulkóðunaraðferða vegna kosninga í háskólaumhverfinu allt frá árinu 1995. Kerfið er nú í notkun með ýmsum hætti í 18 þjóðlöndum. 300 starfsmenn vinna hjá Scytl.

Tilraunaverkefnið í Sveitarfélaginu Ölfusi með rafrænar íbúakosningar er mikilvæg tilraun á sviði samráðs við íbúa og stórt skref í framkvæmd rafræns lýðræðis í sveitarfélögunum. Það er full ástæða til þess að þakka bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir framtakið og þá djörfung sem hún sýnir með þessari ákvörðun sinni.

Þá er ekki síður ástæða til þess að hvetja Ölfusinga til þess að taka þátt í íbúakosningunum. Rafrænu íbúakosningarnar í Ölfusi eru merkur sögulegur áfangi í þróun lýðræðis í sveitarfélögum á Íslandi.