Um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga

Mikil umræða á sér nú stað í samfélaginu um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Af því tilefni hefur Samband íslenskra sveitarfélaga tekið saman margvíslegar upplýsingar um þennan mikilvæga lið í velferðarþjónustu sveitarfélaga. Síðan verður uppfærð reglulega með nýjum gögnum, m.a. afritum af umsögnum sveitarfélaga um frumvarp það sem er til meðferðar hjá velferðarnefnd Alþingis. Með því móti vill sambandið stuðla að opinni og upplýstri umræðu um málið, en mikil áhersla er lögð á að það fái afgreiðslu á Alþingi fyrir þinglok í vor.

Til upplýsingar um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga

Almennt er hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Hins vegar er sveitarfélögum skylt að veita íbúum sínum þjónustu og aðstoð sé þörf á því. Því geta einstaklingar undir ákveðnum viðmiðunarmörkum eða einstaklingar án framfærslu átt rétt á því að sækja um fjárhagsaðstoð hjá sínu sveitarfélagi.  Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er veitt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglum hvers sveitarfélags fyrir sig, en sveitarfélög skulu setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Fjárhagsaðstoð skal ávalt veitt til þess að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.  

Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014 – 2018 segir m.a.:

3.3.16 Sambandið skal vinna að því að félagslegur stuðningur sé skilgreindur út frá þörfum þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem þurfa á aðstoð að halda, óháð aldri, heilbrigði eða fötlun þeirra. Stefnt verði að því að lög um félagsþjónustu nái til allra og sérlög um einstaka hópa verði felld úr gildi.

3.3.17 Sambandið skal vinna að því að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði skilgreind sem neyðaraðstoð og öryggisnet fyrir þá sem eru að fara á milli annarra framfærslukerfa eða eiga af einhverjum ástæðum ekki rétt á annarri framfærslu. Áhersla verði lögð á að virkja þá, sem þurfa á neyðaraðstoð að halda, til sjálfshjálpar með fjölbreyttum virkniúrræðum sem henta þörfum sem flestra.