Niðurstöður úr fjárhagsáætlunum 2015-2018

Niðurstöður úr fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir A-hluta og A+B hluta fram til ársins 2018 liggja nú fyrir. Í heildina tekið þá er útlitið heldur gott í rekstri sveitarfélaga á árunum 2015-2018. Rekstrarafgangur er ásættanlegur, veltufé frá rekstri fer vaxandi, lántaka minnkar, skuldir lækka og veltufjárhlutfall og skuldahlutfall styrkist. Á hinn bóginn er samdráttur í fjárfestingum í varanlegum rekstrarfjármunum. Vitaskuld eykst óvissan um endanlega útkomu eftir því sem lengra líður á áætlunartímabilið. Því gefa þessar niðurstöður fyrst og fremst ákveðnar vísbendingar um í hvaða átt stefnir á ýmsum sviðum í fjármálalegu umhverfi sveitarfélaganna á komandi árum.

Niðurstaða fjárhagsáætlana fyrir samstæðu sveitarfélaga fyrir árin 2015-2018 er að sveitarfélögin hafa í heildina tekið góð tök á fjármálum A-hluta sveitarsjóða og B-hluta fyrirtækja. Þróunin virðist stefna í rétta átt þrátt fyrir að um einhver frávik geti verið að ræða milli ára. Á tímabilinu er rekstrarafkoma í heildina tekið góð, veltufé frá rekstri er ásættanlegt og skuldir fara lækkandi. Vitaskuld eru þessar niðurstöður háðar ýmsum ytri forsendum sem sveitarfélögin ráða ekki við. Þar má til dæmis nefna niðurstöður kjarasamninga, almenna verðþróun, atvinnustig í samfélaginu, gengisþróun og vaxtastig. Að því gefnu að þessar forsendur þróist innan ásættanlegra marka á komandi árum, þá er ekki hægt að segja annað en það stefni í fjárhagslega rétta átt hjá íslenskum sveitarfélögum og stofnunum þeirra á næstu fjórum árum.