Ályktun í tilefni af alþjóðadegi kvenna 8. mars

Evrópusamtök sveitarfélaga og svæða, CEMR, beina því til Evrópustofnana að styðja betur við jafnréttisstarf sveitar- og svæðisstjórna því tölulegar upplýsingar sýni að kynjajafnrétti eigi ennþá langt í land. 22% kvenna hafa upplifað ofbeldi í nánum samböndum, þær fá 16% minna kaup fyrir sams konar vinnu og þær eru ennþá í minnihluta þegar kemur að störfum sem fela í sér ákvörðunarvald. Án frekari stuðnings sé hætta á að það dragi úr jafnréttisstarfi á sveitarstjórnarstiginu eða  það hverfi jafnvel alveg.  ESB þurfi að styðja við tölfræðilega vinnslu á stöðu kynjajafnréttis á sveitarstjórnarstiginu og aðstoða við þróun verkfæra til að mæla árangur. ESB þurfi einnig að hafa sveitarstjórnastigið með í ráðum í stefnumótun sinni en ESB vinnur nú að stefnumótun um jafnrétti kynjanna eftir 2015. Nánari upplýsingar má finna á vef CCRE.

Alþjóðasamtök sveitarfélaga og borga, UCLG, benda til viðbótar á að aðeins 16% borgarstjóra höfuðborga heimsins séu konur og aðeins 7,8% forsætisráðherra. UCLG bendir á að ekki sé hægt að ná félagslegu réttlæti, nema með því að tryggja fulla þátttöku kvenna í ákvörðunartökuferlum.  Sjálbær þróun þurfi að byggjast á kynjaðri stjórnun.  Sjá nánar á vef UCLG.