Tólfti fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA

Loftslagsmál, flóttamannavandinn og fyrirhugaður fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjanna (TTIP)  til umræðu

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í tólfta sinn í Brussel 16.-17. nóvember sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Helsta viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni var loftslagsráðstefnan í París (COP21) og hlutverk sveitarfélaga og aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsbreytingum, sem vettvangurinn ályktaði um. Einnig var fjallað um fyrirhugaðan fríverslunarsamning ESB og Bandaríkjanna (TTIP), samningaviðræður um fjölþjóðlegan samning um þjónustuviðskipti (TiSA) og flóttamannavandann í Evrópu

Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki í að ná alþjóðlegum markmiðum í loftslagsmálum og þau geta dregið verulega úr losun

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki þegar kemur að aðgerðum til að bregðast við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga enda bera þau ábyrgð á mikilvægum málaflokkum í þessu samhengi, s.s. skipulagsmálum, almenningsamgöngum, menntamálum, úrgangs- og orkumálum og umhverfisvernd. Brýnt er að ríki og sveitarfélög móti sér stefnu í loftslagsmálum og tryggi fjármuni til að skipuleggja aðgerðir, innleiða þær og fylgja þeim eftir. Samkvæmt skýrslu Norðurlandaráðs er fjárstuðningur ríkisvaldsins forsenda þess að styrkja megi loftslagsvinnu í sveitarfélögum, til að innleiða stefnumið og til að geta ráðið samræmingaraðila og annað starfsfólk. Borgarstjórasáttmálinn er sáttmáli sveitarfélaga um nýtingu sjálfbærrar orku og aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með aðild skuldbinda borgir og bæir sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um meira en 40% til ársins 2030. Sáttmálinn felur í sér greiningu, aðgerðaáætlun um takmörkun á losun gróðurshúsalofttegunda og eftirlit með framkvæmdinni. Aðilar skuldbinda sig einnig til að stuðla að vitundarvakningu meðal borgaranna og til að deila fyrirmyndarverkefnum. Reykjavíkurborg er aðili að sáttmálanum.

Sveitarstjórnarvetttvangurinn samþykkti  ályktun um loftslagsmál sem flutt var af Christian Haugen frá Hedmark í Noregi.  Í ályktuninni er hlutverk sveitarfélaga og mikilvægi aðgerða þeirra til að bregðast við loftslagsbreytingum áréttað. Hnykkt er á nauðsyn staðlaðra reikniaðferða til að leggja mat á útblástur og aðgerðir og að komið verði á kerfi þar sem sveitarfélög geti selt ríksvaldinu losunarheimildir sem myndi verða þeim hvatning til að minnka losun og verða lofslagsvænni. Þá er í ályktuninni kallað eftir auknu fjármagni til að gera sveitarfélögum kleift að grípa til aðgerða til að minnka losun og bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga og áhersla lögð á samráð við þau þegar gerðar áætlanir í loftslagsmálum, í samræmi við nálægðarregluna.

Ályktuninni hefur verið komið á framfæri við stjórnvöld EES-ríkjanna, stofnanir EFTA og ESB, og Svæðanefndina.

Nánar um fundinn.