Samstarf við Sveitarfélagasamband Slóvakíu

Nýlega var undirrituð viljayfirlýsing á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélagasambandsins í Slóvakíu, ZMOS, um samstarf til að skiptast á upplýsingum og reynslu og taka þátt í sameiginlegum verkefnum. Yfirlýsingin var undirrituð í kjölfar gagnkvæmra námsheimsókna íslenskra og slóvakískra sveitarstjórnarmanna.  Markmið heimsóknanna var að skiptast á upplýsingum og reynslu um sameiningar sveitarfélaga, íbúalýðræði og umverfis- og félagsmál. Í Slóvakíu búa um 5,4 milljónir manna á 49.000 km2.  Lýðræðislegt sveitarstjórnarstig varð til eftir stjórnkerfisbreytingar í landinu 1990. Höfuðborgin Bratislava er stærsta sveitarfélagið með 410.000 íbúa en það minnsta  er aðeins með átta íbúa. Alls eru sveitarfélögin í Slóvakíu 2.930 og það skýrir áhugann á sameiningum sveitarfélaga. Námsheimsóknirnar voru fjármagnaðar af EES uppbyggingarsjóðnum (áður Þróunarsjóður EFTA), sjá hér og hér.

EES/EFTA ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein standa undir sjóðnum. Þau hafa allt frá gildistöku EES samningsins greitt framlög til að stuðla að uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa verst að vígi efnahagslega og félagslega og er það greiðsla þeirra fyrir aðgang að innri markaðnum. Tæpir tveir milljarðar evra var til ráðstöfunar úr sjóðnum á síðasta styrkjatímabili 2009-2014 til þróunarverkefna í sextán aðildarríkjum  ESB í Suður- og Austur Evrópu.  Samningaviðræður um næsta styrkjatímabil tóku mjög langan tíma og er ekki búið að innsigla samningsniðurstöðuna sem gerir ráð fyrir 11,3% hækkun framlaga EES EFTA ríkjanna og lengingu styrkjatímabilsins í sjö ár. Undanfarin ár hefur verið lögð aukin áhersla á tvíhliða samstarf EES/EFTA ríkjanna við styrkþegaríkin og á nýju styrkjatímabili verður gengið enn lengra í þá átt. Það ættu því að vera góðir möguleikar fyrir sveitarfélagasamstarfi á milli Íslands og Slóvakíu með stuðningi sjóðsins í samræmi við stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014-2018 þar sem segir í lið 3.1.19 að sambandið skuli að vinna að því að sveitarfélög geti nýtt sér tækifærin sem liggja evrópsku samstarfi, bæði til ávinnings og framþróunar starfsemi sinnar og til að miðla þekkingu sinni til aðila í öðrum löndum.

Theódóra Matthíasdóttir, Unnur Margrét Arnardóttir, Lúðvík Gústafsson og Páll Brynjarsson í Slóvakíu með starfsbróður sínum.