Samráðsfundur um málefni skóla án aðgreiningar
Yfir þrjátíu fulltrúar frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga komu saman á samráðsfundi um málefni skóla án aðgreiningar í Stakkahlíð þriðjudaginn 15. desember sl. Samráðsfundir þessara aðila eru haldnir tvisvar á ári og er þeim ætlað að efla faglega umræðu um menntamál og leiða til gagnkvæms ávinnings.
Meðal fyrirlesara á fundinum voru Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi sambandsins, og Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.
Erindi Svandísar fjallaði um mat á framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar, en í lokaerindi fundarins var í boði Skúla Helgassonar og hann fjallaði um Þörfina á vettvangi. Tækifæri og hindranir við að mæta þörfinni.
Undirrituðu viljayfirlýsingu í fyrra
Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu viljayfirlýsingu um faglegt samstarf árið 2014. Megintilgangur hennar er að koma á sameiginlegum vettvangi til faglegrar umræðu og skoðanaskipta um nám og kennslu barna og ungmenna, um menntun kennaraefna og starfsþróun að námi loknu. Samkvæmt viljayfirlýsingunni eru áætlaðir tveir formlegir fundir á ári og frekara samstarf eftir atvikum.