Sjóðstreymi ársreiknings

Fjárhagur 9. hluti

Sjóðsstreymi ársreiknings er þriðja yfirlit ársreiknings þar sem dregnar eru saman niðurstöður um hvað hefur gerst í fjármálum sveitarfélagsins á liðnu ári.

Í sjóðstreymi kemur fram yfirlit um hvað hefur átt sér stað í fjárstreymi sveitarfélagsins á árinu. Í sjóðstreymi kemur fram yfirlit um:

  • það fjármagn sem eftir stendur þegar reikningar vegna daglegs rekstrar hafa verið greiddir

  • hve mikið fé hefur verið tekið að láni

  • hve mikið hefur fallið til vegna sölu eigna

  • hve háar afborganir lána séu og

  • hve mikið fé hefur verið lagt í fjárfestingar

Svo helstu liðir sjóðsstreymis séu taldir upp.

Veltufé frá rekstri

Veltufé frá rekstri er ein mikilvægasta kennitalan í sjóðstreymisyfirliti. Hún er reiknuð þannig út að frá rekstrarniðurstöðu ársins eru dregnir reiknaðir liðir sem hafa ekki áhrif á fjárstreymið. Þar má nefna bókhaldslegan söluhagnað eigna, reiknaðar afskriftir, verðbætur og gengismun ásamt breytingu á lífeyrisskuldbindingum. Þar til viðbótar er tekið tillit til breytinga á birgðum, óinnheimtum tekjum, skammtímakröfum og skammtímaskuldum.Niðurstaða þessa er veltufé frá rekstri. Það er það fjármagn sem til ráðstöfunar er til að greiða af skuldum og leggja í nýjar fjárfestingar.

Þegar lagt er mat á fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins er yfirleitt litið fyrst á veltufé frá rekstri því niðurstaða þess gefur til kynna hve auðvelt sveitarfélagið á með að standa við skuldbindingar sínar og hve sjálfbær rekstur þess er.

Með því að reikna út hlutfall veltufjár frá rekstri af heildartekjum sveitarfélagsins er hægt að bera stöðuna saman milli einstakra sveitarfélaga. Á þann hátt sést hve mikið er afgangs af heildartekjum ár hvert til að greiða afborganir lána og til að leggja í fjárfestingar. Einnig er hægt að deila veltufé frá rekstri upp í langtímaskuldir þess til að sjá hve langan tíma tekur að greiða upp skuldir sveitarfélagsins miðað við óbreytta stöðu veltufjár. Það gefur grófa ábendingu um hvernig staðan er. Það skiptir máli hvort það tekur fimm ár eða 25 ár að greiða upp öll langtímalán miðað við óbreytt veltufé frá rekstri.

Á þennan hátt er hægt að leggja mat á hve mikið veltufé frá rekstri þurfi að batna til að sveitarfélagið geti staðið við skuldbindingar sínar ef svo ber undir. Fjárhagsleg staða sveitarfélags getur verið erfið enda þótt skuldir á íbúa séu lágar ef veltufé frá rekstri er lítið sem ekki neitt. Á sama hátt getur skuldsett sveitarfélag verið í mjög ásættanlegri stöðu ef veltufé frá rekstri er það hátt að það sé ekkert mál að greiða afborganir lána.

Þegar handbært fé er reiknað út er einnig tekið tillit til lánsfjár, birgðabreytinga og annarra þátta sem hafa áhrif á handbært lausafé. Það gefur því ekki eins skýra mynd af fjárhagsstöðu sveitarfélagsins eins og veltuféð.

Fjárfestingarhreyfingar ársins gefa yfirlit um fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum, söluverð seldra rekstrarfjármuna, fjárfestingu í eignarhlutum, framlög eigin stofnana og önnur framlög.

Fjármögnunarhreyfingar gefa yfirlit um ný langtímalán, afborganir langtímalána og breytinga á eigin fyrirtækjum.

Niðurstaða sjóðstreymis gefur yfirlit um breytingar á handbæru fé, sem er munur á handbæru fé í ársbyrjun og handbæru fé í árslok.