Undirritun yfirlýsingar um faglegt samstarf við Háskólann á Akureyri

Þann 16. desember sl. fór fram undirritun yfirlýsingar um faglegt samstarf sambandsins og hug- og félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri. Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs, fyrir hönd kennaradeildar og miðstöðvar um skólaþróun, og Halldór Halldórsson, formaður stjórnar sambandsins, undirrituðu yfirlýsinguna á Akureyri í gær.

Megintilgangur hennar er að koma á sameiginlegum vettvangi til faglegrar umræðu og skoðanaskipta um nám og kennslu barna og ungmenna, um menntun kennaraefna og starfsþróun að námi loknu.  Er það sameiginlegt mat aðila að slíkur samráðsvettvangur sé þýðingarmikill, m.a. í ljósi þess að sveitarfélögin eru vinnuveitandi meginþorra allra kennara landsins, og er honum ætlað að leiða til gagnkvæms ávinnings og skilnings á hagsmunum hlutaðeigandi aðila. Samkvæmt viljayfirlýsingunni eru áætlaðir tveir formlegir fundir á ári og annað samstarf þar á milli eftir því sem tilefni er til.

Með þessari yfirlýsingu er lagður grunnur að farsælu og reglubundnu samtali í þeim tilgangi að efla og styrkja faglega umræðu um málefni skóla- og menntamál sem eru svo ríkur þáttur í starfi hvers sveitarfélags.